Home > Óflokkað efni > Ræða Halldóru Kristínar Thoroddsen 26. janúar 2013

Ræða Halldóru Kristínar Thoroddsen 26. janúar 2013

February 12th, 2013 admin

Kæru Samborgarar!
Hvað dregur okkur hingað á Austurvöll? Hví stöndum við hér? Hvert er erindi okkar? Jú, Því er auðsvarað, Þetta er baráttufundur og baráttan snýst fyrst og fremst um auðlindir þjóðarinnar. Það er ögurstund í íslensku samfélagi. Á ögurstundum getur brugðið til beggja vona.

Það er kominn tími til að við íbúar þessarar jarðar hefjum siðlega umgengni við náttúruna. Kominn tími til að við hættum að líta á hana sem ótæmandi uppsprettu arðs fyrir fáa útvalda. Arðurinn af náttúruauðlindum jarðar safnast nú á svo fáar hendur, að svo er komið að árstekjur eitt hundrað manna hér á jörðunni er fjórum sinnum hærri upphæð en þyrfti til að útrýma fátækt í heiminum.
… Við eigum ekki náttúruna, við erum náttúran, vöxum upp af jörðunni eins og laufin á trjánum. Með takmarkaðan nýtingarrétt á gjöfum hennar, okkur öllum til handa. Siðleg umgengni við náttúruna er orðin spurning um framtíð tegundarinnar.

En verum ekki svo barnaleg að ætla að hagsmunaaðilar leyfi okkur að kjósa burt hagsmuni sína, að þeir skili sérhagsmunum sínum baráttulaust.

Hverju breytir svo auðlindaákvæði nýja stjórnarskrárfrumvarpsins? Hverju breytir það að skilgreina annars konar eignarrétt en séreignarrétt í stjórnarskrá Íslands? Er ekki ákvæði í gildandi stjórnarskrá sem kveður á um að auðlindirnar séu sameign þjóðarinnar? Jú, en ákvæðið er of almennt og ekki lögtækt. Það hefur í mesta lagi nýst sem fagurgali í hátíðarræðum. Svokallaðir kvótaeigendur hafa með leyfi yfirvalda umgengist auðlindina sem séreign og notað óveiddan fiskinn í sjónum til veðsetningar. Árið 2009 var sjávarauðlindin veðsett upp á 550 milljarða og helmingur lánanna sem fengust út á veðin fóru í fjárfestingar ótengdar sjávarútvegi, svo sem til gjaldeyris- og afleiðuviðskipta. Það eru kunnugleg nöfnin sem nú hafa sótt um tilraunaboranir á Drekasvæðinu, en því fylgir jafnframt leyfi til að vinna olíu og gas þegar það finnst. Er kannski ætlunin að gefa þeim olíukvóta?

Auðlindarákvæði hins nýja stjórnarskrárfrumvarps hljóðar svo í mjög styttri útgáfu: ,,Auðlindir í náttúru Íslands sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja”.

Nefnd lagatækna viðraði meðvirkni sína með sérhagsmunaöflunum í fyrradag og ályktaði (að því er virtist í fullri alvöru) að með því að setja þetta ákvæði inn í stjórnaskrá væri hægt að nota það til að meina fólki þess að njóta sólaljóss og andrúmslofts. Come on!

Það var fyrir fjórum árum sem þjóðin stóð hér á Austurvelli hamslaus af reiði, þegar skynvillan hrundi á einum degi, stímdi á veruleikann með brauki og bramli og svikavefurinn varð lýðnum ljós. Hvílík óheilindi, og allt í boði yfirvalda. Þúsund manna þjóðfundur setti fram kröfur um gagnsæi, ábyrgð, réttlæti, valddreifingu sjálfbæra þróun og að auðlindir skyldu verða óframseljanleg eign þjóðarinnar.

Í hinu nýja stjórnarskrárfrumvarpi er komið til móts við allar þessar kröfur.

Við vitum fullvel að stjórnarskrá tryggir ein og sér ekki góða stjórnarhætti. Hins vegar er hún vegvísir, hún skilgreinir grunngildi þjóðar og góð stjórnarskrá á að tryggja eftirlit með valdinu svo að það haldi þau gildi í heiðri. Það eftirlit þarf að vera innbyggt í stjórnkerfið og sístarfandi til þess að rétta kúrsinn.
Þættir valdsins þurfa bæði að vera aðskildir og skarast svo að þeir hafi aðhald og eftirlit hver með öðrum, jafnharðan. Það er þetta verklag sem mér finnst að stjórnlagaráði hafi tekist að skrifa inn í hið nýja stjórnarskrárfrumvarp. Stjórnarskrárfrumvarpið tekur gildandi stjórnarskrá langt fram og kveður á um stórbætta stjórnsýslu, aukið gagnsæi í kerfinu, meira lýðræði. Inniheldur skýrari og réttlátari mannréttindakafla og kröfu um að jafna loks vægi atkvæða og um sjálfbærni og náttúruvernd. Það er sjálfsagt að taka til skoðunar alla málefnanlega rýni sem gæti orðið til gagns, nú á þessum síðustu metrum vinnunnar við nýja stjórnarskrá svo framarlega sem rýnin er sett fram til að bæta frumvarpið, en ekki í þeim annarlega tilgangi að koma í veg fyrir að auðlindirnar verði raunveruleg þjóðareign.

Það er vegna auðlindaákvæðisins í nýja stjórnarskrárfrumvarpinu sem við stöndum hér, fyrir því þarf að berjast. Nú er ályktað út um allan bæ, því að vél sérhagsmunaaflanna er löngu kominn í gang og margir leggjast á árar. Nytsamir sakleysingjar sem hafa drukkið með móðurmjólkinni meðvirkni með valdinu, embættismenn kerfisins, eða bara grímulausir hagsmunaaðilar með herskáum meðreiðarsveinum. Það fyrirfinnast líka því miður fræðimenn, handhafar þekkingarinnar, sem tína til smáatriði og blása þau út til þess eins að eyðileggja vinnuna. Þeir vilja núna láta taka sig alvarlega… þeir hinir sömu sem æmtu hvorki né skræmtu þegar mest á reið fyrir þjóðina. Hvar voru þeir þá? Jú, í klappliði valdsins… Hvar annars staðar?

Við brýnum Alþingi til verka, því það þarf að samþykkja stjórnarskrárfrumvarpið á þessu þingi. Takk fyrir.

Categories: Óflokkað efni Tags:
Comments are closed.