Home > Óflokkað efni > Örn Bárður – ræða 26. janúar 2013

Örn Bárður – ræða 26. janúar 2013

February 12th, 2013 admin

Tætarar og LÍÚvitni
Ræða flutt á Austurvelli 26. janúar 2013 á fundi Radda fólksins

Góðir áheyrendur, kæru lýðræðisvinir.
Borgin var klædd hvítum möttli í morgun, hrein og tær eins og vagga nýfædds barns, táknmynd þess að til er eitthvað óspillt og tært. En svo tekur skuggalegur veruleikinn við. Í þessu þjóðfélagi eiga ástök sér stað og þar fer mikinn, fólk sem starfar í flokkum sem ég kalla, Tætaraflokka.
Ég man þegar ég fór með sparifé mitt í banka í fyrsta sinn og stofnaði bankabók. Ég man líka vel þegar ég áttaði mig á því að bankarnir voru eins og óseðjandi skrímsli sem átu peninga. Í bönkunum voru og eru tætarar sem eyða sparifé landsmanna. Þetta var á 6. áratugi liðinnar aldar. Rúmum áratug síðar stóð ég í húsbyggingu og þá fengust ekki bankalán til framkvæmda. Þá gekk maður bara fyrir afli eigin handa og sjálfsaflafé. Sumir höfðu reyndar aðgang að bankaskrímslinu og fengu ódýrt lánsfé sem aldrei þurfti að borga því það var sjálfvirk lánaeyðing í gangi fyrir útvalda, gengisfellingar, sem stjórnvöld beittu til að færa fjármuni á milli þjóðfélagshópa. Fjármunir runnu til útflutningsatvinnuveganna sem að stofni til voru útgerðirnar. Nú eru komnar til starfa svonefndar skilanefndir sem ættu kannski að kallast „lánaeyðing bankanna“ þar sem starfar fólk er fær skrilljónir í laun fyrir að ýta á trakkann á tætaranum. Innan stjórnmálastéttarinnar er fólk sem hefur fengið lausn sinna mála með aðstoð fólks á takkanum sem tætir í sig skuldabréf og kröfur. Og kúlulánaþingmenn brosa breitt og halda bara áfram að ræða skuldavanda heimilanna ásamt hinum og lítið gengur í þeim efnum. Absúrd veruleiki.
Við höfum aldrei átt þetta land frá því við urðum sjálfstæð þjóð, þjóðin hefur aldrei átt þetta land.
Ég man gömlu útgerðarmennina á Vestfjörðum þegar ég var drengur sem voru hjartað í sinni byggð, stóðu og féllu með fólkinu. En svo man ég þegar ég fullorðinn vaknaði einn daginn við það sem prestur í útgerðarbæ hér syðra að nokkrir bæjarbúar voru allt í einu orðnir milljarðamæringar. Þeir höfðu farið að sofa daginn áður sem ósköp venjulegir útgerðarmenn en vöknuðu við það að auðurinn velti þeim nánast af koddanum. Það var engu líkara en opnast hefði gjósandi peningahver undir rúminu. Og sumir þeirra hættu í útgerð, seldu og fóru að braska með féð. Það leit svo miklu betur út í byrjun að þurfa ekki að vera andvaka yfir bátunum, fiskvinnslunni, rekstrinum, fiskverkunarfólkinu, körlunum og kellingunum að ógleymdum útlendingunum, veðrinu og öllu þessu basli sem tilheyrir íslenskri útgerð við veðurbarða strönd. Nú var hægt að halla sér aftur í hægindastól og horfa á peninganan vinna fyrir sig, „græða á daginn og grilla á kvöldin“. En andvökunæturnar hurfu ekki því nýjar áhyggjur tóku við að gömlum. Nú sváfu menn ekki vegna áhyggna yfir því hvort fjármunirir væru í réttum sjóðum eða félögum. Ég fann til með þessu áhyggjufulla fólki enda allt gott og vel meinandi fólk sem hafði bara lent í þeirri ógæfu að nánast drukkna í peningum. Í fyrra græddu þau áttatíuogeittþúsundmilljónir og barma sér yfir að greiða gjald fyrir aðgang að auðlindinni okkar. Og enn er þetta góða fólk að störfum í þjóðfélaginu, fjölskyldurnar fáu sem eiga landið. LÍÚflingar Íslands.
Og hverjir leyfðu veðsetningu kvótans og gerðu þar með atlögu að eignarhaldi þjóðarinnar á sjávarauðlindinni?
Árið 1990 mælti Halldór Ásgrímsson, þáv. sjávarútvegsráðherra fyrir frumvarpi sem breytti Íslandi á afdrifaríkan hátt. Forsætisráðherra þjóðarinnar þá var – og nú vitna ég í Magnús Þór Hafsteinsson – „Steingrímur Hermannsson. Hann var jafnframt formaður Framsóknarflokksins sem hafði myndað ríkisstjórn með Alþýðubandalagi, Alþýðuflokki og Borgaraflokki.
Framsóknarflokkur og forverar Samfylkingar og Vinstri grænna samþykktu kvótalögin árið 1990.
Saman stóðu þessi fjórir flokkar að því voðaverki að færa kvótakerfið með frjálsu framsali í lög. Nokkrir þingmenn Alþýðubandalags og Alþýðuflokks klufu sig þó frá, stóðu í lappirnar og sögðu NEI.
Þingflokkar Sjálfstæðisflokks og Kvennalista sem voru í stjórnarsandstöðu sögðu NEI við frumvarpinu (sem er háðuleg niðurstaða í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur allar götur síðan staðið vörð um kerfið og fest það í sessi eftir fremsta megni).“
(Magnús Þór Hafsteinsson:

http://magnusthor.blog.is/blog/magnusthor/entry/1036734/)

Kæru lýðræðisvinir.
Við höfum aldrei átt þetta land frá því við urðum sjálfstæð þjóð, þjóðin hefur aldrei átt þetta land. Því hefur alltaf verið stjórnað af fámennum hagsmunahópum þar sem fáir eiga flest en fjöldinn fátt.
Krafa fólksins var og er ný stjórnarskrá. Nú þarf þjóðin að standa lýðræðisvaktina. Alþingi skynjaði vitjunartíma sinn og hrökk í dúndrandi gír frjórrar sköpunar og fól þjóðinni að semja nýja stjórnarskrá. Svo er hugrökku og skapandi fólki að þakka sem situr á þingi og er enn að berjast fyrir þessu góða máli. Það er fagnaðarefni. Gleymum því ekki. Á Alþingi átti sér stað algjört kraftaverk þegar þetta ferli hófs fyrir um 4 árum því Alþingi hafði sýnt sig um árabil verandi ófært um að endurskoða stjórnarskrána, búið að sitja í sama tossabekknum í þeim efnum með 4,9 eða minna í einkunn á hverju vorprófi í tæp sjötíu ár. Það eitt vakti okkur von að slíkt undur skyldi hafa gerst að þjóðinni var falið þetta mikla verkefni.
Það er gaman að búa á Íslandi, landinu sem af og til vekur athygli fyrir flott frumkvæði: við eigum fyrsta þjóðkjörna forseta sögunnar, fyrsta þjóðkjörna kvenforsetann, en við vorum líka fyrst til að fara á hausinn, fyrst til að byrja búsáhaldabyltingu – í það minnsta á þessari öld – fyrst til að fela þjóðinni að semja stjórnarskrá, en á góðri leið með að verða fyrst til að eyðileggja slíkt glæsiferli og gargandi snilld. En ég trúi því samt ekki.
Við erum makalaus þjóð. Við sem hér stöndum lýðræðisvaktina viljum ekki gefast upp fyrir þessum fáránleika, fyrir þessu absúrd leikriti sem er í gangi. Við erum hér undir vegg Alþingis sem er harði diskurinn í gagnverki þjóðfélagsins. Ég treysti því að enn sé til gott fólk í þessu svarta húsi við Austurvöll.
En vandinn er sá að stýrikerfið er úrelt. Vinnubrögðin óskilvirk. Afköstin lítil vegna óeiningar og upplausnar. Nú er frumvarp að nýrri stjórnarskrá til umræðu, flott frumvarp og framsækið, hógvært en samt hugumstórt.
Fróðir menn hafa bent á að flestum baráttumálum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar s.l. 7 áratugi eru gerð skil í nýja frumvarpinu. En þeir eru samt á móti. Hvað er þá að? Hvatir þeirra í andófinu eru af einhverjum öðrum toga en málefnalegum. Eru þeir kannski flestir LÍÚvitni inn við beinið?
Úrtölufólk hefur nú vaknað sem af dvala til að tala, skrifa og blogga. Það þarf víst að rannsaka þetta betur, gefa sér meiri tíma, fá eilítunni það í hendur og fræðimönnum sem vilja komast á skilanefndarlaun til að tæta niður skjalið góða. Örfáir fræðimenn, sem í hógværð sinni leyfðu að þeir væru kallaðir Fræðasamfélagið, með stórum staf og ákveðnum greini, hafa farið mikinn undir merki Háskóla Íslands. En vissuð þið að málþing Fræðasamfélagsins, með stórum staf og ákveðnum greini, var undirbúið og skipulagt af fv. þingmanni stærsta hrunflokksins? Það þarf ekki nema að skipta um einn staf í orðinu háskóli til að lýsa þessum vinnubrögðum, taka essið út og setja eð í staðinn. Prófaðu hljóminn í því orði.
Stjórnarskráin er tilbúin. Hún er flott plagg sem reyndar þarf að álagsprófa í náinni framtíð. Hún er eins og nýfætt barn sem þarf að fá að sanna sig. Hún er ekki fullkomin en hún er flott. Það segja innlendir fræðimenn og erlendir sérfræðingar sem gefa henni hæstu einkunn. Hún fellur ekki með 4,9 en þingmennirnir gætu fallið með þá einkunn -eða enn lægri – vegna þess að þeir skilja ekki sumir hvað er í húfi, sjá ekki samhengið vegna þess að það er kerfisvilla í hópnum, vírus í forritinu.
Þessi svarti harði diskur sem við augum okkar blasir þarfnast nýs stýrikerfis. Það er kominn tími til að uppfæra forritin, skipta út mörgum sem þar sitja nú, en líka að skipta um stýrikerfið sjálft, stjórnarskrána, sem er grundvöllur allra landsins laga. Nýja stjórnarskráin er sú fyrsta sem samin er sem sáttmáli íslensku þjóðarinnar við sögu sína, samtíð og framtíð. Fyrsti sáttmáli frjálsrar þjóðar í þessu landi. Við viljum ekki að hún fari í tætarann. Við skulum standa lýðræðisvaktina þar til sigur vinnst.
Stjórnarskráin er eins og himnasending sem fengið hefur rúm í þessum helli við Austurvöll þar sem vitringarnir streyma nú að henni með sínar gjafir og þær eru ólíkar gjöfum vitringanna þriggja forðum því nú færa þeir fram fátt annað en bull, ergelsi og firru.
Þau verða að teljast skyni skroppin sem sitja nú á þingi og ætla sér að biðja um stuðning til setu næstu 4 ár og byrja kosningabaráttuna með því að ulla framan í þjóðina sem er uppspretta valdsins.
Tætaraflokkarnir ætla að bjóða fram í vor. Þeir þekkja hvernig eyðileggja á skjal sem ógna sérhyggjunni og þeim sjálfum, gæslumönnum hagsmuna hinna fáu á kostnað hinna mörgu. Þeir reynast vera nytsamir erindrekar, LÍÚvitni sérhyggjunnar.
En við skulum þrátt fyrir allt gefa þeim tækifæri og vona að þeim auðnist að ganga í sig og snúa til baka eins og týndi sonurinn í dæmisögunni góðu gerði, sem sneri aftur til föður síns, sem að breyttu breytanda er þjóðin sjálf og vilji hennar.
Kæru lýðræðisvinir. Við höfum aldrei átt þetta land frá því við urðum sjálfstæð þjóð. Því hefur alltaf verið stjórnað af fámennum hagsmunahópum þar sem fáir eiga flest en fjöldinn fátt.
Stöndum gegn tætingslegum málflutningi tætaraflokkanna og sendum þeim skýr skilaboð þjóðar sem vill þróa samfélagið til betri vegar í þeim anda sem segir í aðfaraorðum nýrrar stjórnarskrár:
Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. [. . . ] Við viljum efla friðsæld, öryggi, heill og hamingju á meðal okkar og komandi kynslóða.
Þetta er fögur sýn.
Þetta er andinn í nýrri stjórnarskrá.
Við sem hér köllum eftir nýju Íslandi óttumst ekkert. Við eigum landið og miðin og við viljum að Alþingi samþykki frumvarp Stjórnlagaráðs, e.t.v. með smávægilegum, lagatæknilegum lagfæringum, frumvarp sem þjóðin hefur tekið upp á sína arma og óskað eftir að verði kjölurinn í nýjum grundvallarlögum, stjórnarskrá Íslands. „Í kili skal kjörviður“ og þetta frumvarp uppfyllir þá kröfu.
Kæru lýðræðisvinir.
Stöndum lýðræðisvaktina!
Látum ekki hugfallast!
Rættlætið og sannleikurinn munu sigra!

Categories: Óflokkað efni Tags:
Comments are closed.