Home > Óflokkað efni > Bálkur Hallgríms Helgasonar á fundi Radda fólksins 9. febrúar

Bálkur Hallgríms Helgasonar á fundi Radda fólksins 9. febrúar

February 12th, 2013 admin

HVERJIR ERU ÞJÓÐIN?
Flutt á útifundi um betri stjórnarskrá, 9.febrúar 2013.

Hverjir eru þjóðin?
Ekki ég?
Hverjir eru þjóðin?
Er hún treg?
Hverjir eru þjóðin?
Hvað er að ske?

Við stóðum stjörf, við sáum
samfélagið hrynja.
Við lágum flöt, við létum
yfir okkur dynja
vondar fréttir fimm sinnum á dag
um forsætis og fjármálaráðherra
sem fóru í teygjustökk með þjóðarhag.
Og allt sem áður þótti gott
var nú ljótt með loðið skott
sem logið hafði okkur full
með froðubull
um sæta langa sykurdaga
á sólskinsmaga.
Nú fengi landinn þolað þúsund lægðir
með gramm í nös og gylltar hægðir.

Og ljósið skein á svartan reyk og rúst
og ríkisvaldsins luktu lánaleið.
En skuggamegin burt úr bankaþúst
þá bankastjórn með fullar hendur skreið.

Og tröllin sátu kyrr og kveðjutreg
hvísluðust á en sögðu út í sal:
Nei, þið eruð ekki þjóðin, hún er ég
sem þegnar Hruns þið hafið ekkert val.

Hverjir eru þjóðin?
Ekki við?
Hverjir eru þjóðin?
Annað lið?
Hverjir eru þjóðin?
Alþingið?

En okkur tókst að taka soldið völdin
og til á sviðinu en bakvið tjöldin
við komumst ei, þar allt var við það sama
en undan þeim þó birtist hvíthærð dama:

“Við skulum núna skrifa stjórnarskrá
sem skilur okkur aðeins betur frá
öllu því sem áður var og hét
og okkur skilar áfram hænufet.”

Og við mátum, og við mættum
og við menntuðum okkur betur
og við lækuðum og við lásum.
Langur var sá vetur.

Einn bauð sig fram
og önnur til baka
eftir smá “skamm!”
því ættirnar kvaka.
Þær láta sem þær sofi
en samt munu þær vaka…

En konur og kalla
kosti og galla
við kynntum oss og kusum
og fylgdumst með og fórum
um fræðin líkust busum
og settum okkur inní mál
og sögðum skál
við dönskuskotið lagatæknitungumál
frá sautján hundruð og segulstál.

og vonuðum öll það besta
var ísinn lands að bresta?

Hverjir eru þjóðin?
Ég og þú?
Hverjir eru þjóðin?
Von og trú?
Hverjir eru þjóðin?
LÍÚ?

En Hæstifretur Íslands ákvað það
að ekki væri gilt það þjóðargaman
því þó svo hérna væri brotið blað
það brjóta skyldi öðruvísi saman.

Og áttatíu þúsund atkvæði
ógiltust því pappírinn var of þunnur
En þjóðin fékk ei unað því ákvæði
því úrskurðurinn var sentímetra of grunnur.

Svo stjórnlagaþing
varð stjórnlagaráð
stjórnlagalaust og engum háð.
Og eining þess
var öflug og merk:
Á einu sumri því kom í verk
sem fjórir flokkar og fimmtíu vetur
fengu ekki fært í letur.

Það þurfti þjóð
og þolinmótt blóð
til að feta þá lagaflækjuslóð
sem rædd var áður en aldrei þrædd
nema í orðum og varað við
ef vogaður sýndi’á sér fararsnið.

Lof bera orð á loforð sín
ef lítið ber á efndum.
Söguleg markmið sæt og fín
söfnuðu ryki í nefndum.

Ef enginn gerir ekki neitt
Þá aldrei neinu verður breytt.

Hverjir eru þjóðin?
Ekki við?
Hverjir eru þjóðin?
Annað lið?
Hverjir eru þjóðin?
Barn í kvið?

Já, litla gula þjóðin hélt sinn fund
af handahófi valin úr símaskrá
Og litla gula spurði létt í lund:
“Hver vill skrifa nýja stjórnarskrá?”
LÍÚ sagði “Ekki ég”.
SA sagði “Ekki ég”.
Flokkurinn sagði “Ekki ég”.
Sigmundur sagði “Ekki ég”
Mogginn sagði “Ekki ég”
Háskólinn sagði “Ekki ég”
Hæstiréttur “Ekki ég”
Lögfræðin sagði “Ekki ég”
Forsetinn sagði “Ekki ég”
En litla gula þjóðin sagði: “Je!
Ég skal þá bara skrifa hana sjálf
því ég er þjóðin heil en ekki hálf.

Og gula þjóðin litla lagði af stað
með ljós í hjarta, blek, og hnausþykkt blað
Enginn myndi segja eftir á
að afraksturinn væri ei stjórnarskrá.

Já, hverjir eru þjóðin?
Pabbi þinn?
Hverjir eru þjóðin?
Flokkurinn?
Hverjir eru þjóðin?
Forsetinn?

Stjórnlagaráðið stjórnarskrána fékk
tveim stjórnandi flokkum sem sögðu báðir “tékk”.
Eins og þetta væri bara búið
ball en ekki stærðar mál og snúið.
En að lokum málið lagt var inn á þing
og þingið sagði dingalingading!
“Þetta er bara rugl sem ekki má!
Nei, ég má alveg tala hérna smá!”
Og síðan tóku talíbunur við
og tölubanar, sem engu gefa grið
sem eitthvað gæti haft með gott að gera
og þykjast mjög svo málaefnalegir vera.

Sá seinagangur sakaði seinagang
um seinkun máls en seinka náði þó
þeim seinagangi með ælu í eigið fang
sem athygli frá meginmáli dró.

Húrra húrra málþófsmenn
mala hér á landi enn.

Hverjir eru þjóðin?
Þúsund ár?
Hverjir eru þjóðin?
Þorsteinn Már?
Hverjir eru þjóðin?
Nárinn blár?

En loks var kosið, kosið enn á ný:
Við kusum já já nei og já já já
Og sumir fóru í fýlu yfir því
Og flýttu sér að túlka allt á ská:

“Við verðum ei til niðurstöðu neydd
Af nokkrum þeim sem kusu hér í dag.
Þau atkvæði sem ekki eru greidd
er öllum frjálst að túlka sér í hag.

Og þjóðaratkvæðagreiðsla gildir ei
ef góður hluti þjóðar heima situr.
Við vitum öll þau vildu kjósa nei
því sófaþjóðin sú er snjöll og vitur.”

Hverjir eru þjóðin?
Fólkið hér?
Hverjir eru þjóðin?
Oss og vér?
Hverjir eru þjóðin?
Bráðið smér?

Og nú er málið fast í fornum viðjum
sem forðum töldu það sín helgust vé.
Það glittir í það gull í salnum miðjum
hvar gallið súra fólki nær í hné.

Úrtölumenn og konur varða veginn
sem vísar okkur inn á næsta svið
og þó að vegur sá sé okkar eigin
þau eru til sem vilja snúa við.

Er fyrirstaðan föst í okkur sjálfum?
því fyllir ekki þjóðin Ingólfstorgið?
Hér ekkert fæst með linum huga hálfum
Við héldum kannski að máli væri borgið?

Við sáum tímann yfir okkur hrapa
svo Ísland stóð þar eftir nafnið eitt.
Og nú við höfum aðeins einu að tapa:
Því tækifæri sem að oss var veitt.

Já, illt er sína fræknu frelsisglóð
að fela líkt og krækiber í lyngi
og illa komið fyrir þeirri þjóð
sem þægust lúffar fyrir eigin þingi.

Já, hverjir eru þjóðin? þjóðin spyr
og þó er spurningin sú einmitt svarið.
Á hverjum degi opnast aðrar dyr
en aðeins þeim sem fékk að heiman farið.

Svo kæru vinir, hættum ekki hér!
Því hér er ennþá mikið verk að vinna!
Sem veltur á oss öllum, mér og þér
og aldrei má því samstöðunni linna.

Ef aftur þarf að setja kross og kjósa
við kjósum alltaf þolinmæði og þor!
Og ef hér þarf að halda fund og frjósa
við frjósa skulum saman fram á vor!

Við stöndum saman sterk, uns yfir lýkur
og stundarvælið út í buskann fýkur
því þau sem standa skráð í símaskrá
þá skrifa okkur nýja stjórnarskrá.

Hverjir eru þjóðin?
Það er hún.

Hallgrímur Helgason

Categories: Óflokkað efni Tags:
Comments are closed.