Home > Útifundir > #18 – Laugardagur 7. febrúar

#18 – Laugardagur 7. febrúar

February 6th, 2009 ritstjorn

Raddir fólksins halda mótmælafund á Austurvelli laugardaginn 7. febrúar kl. 15.00. Yfirskrift fundarins er sem fyrr “Breiðfylking gegn ástandinu”. Þetta er sjötti mótmælafundurinn í ár og sá átjándi í röð frá hruni bankakerfisins og setningu neyðarlaga í byrjun október sl.

Talsmenn Radda fólksins áttu fund með forseta Íslands föstudaginn 30. janúar sl. og ræddu hugmyndir um nýja stjórnskipan og utanþingsstjórn, nauðsyn á þátttöku almennings í umræðum um nýtt lýðveldi sem og árangurinn af útifundum undanfarna mánuði.

Segja má að forseti og þing hafi að hluta til tekið undir sjónarmið Radda fólksins með skipan óháðra sérfræðinga í stöður viðskipta- og dómsmálaráðherra. Búsáhaldabyltingin hefur því náð að hreyfa við gamla flokksræðinu, en betur má ef duga skal. Nú er nauðsynlegt að taka upp virkt lýðræði og losa þjóðina við útsendara flokkseigenda í fjármálafyrirtækjum, stjórnsýslunni, háskólum og fjölmiðlum.

Það er ekki að ástæðulausu að áhrifum útifundanna hefur verið líkt við Múrbrjót sem með endurteknum þunga mylur niður þann múr þagnar og spillingar sem einkennt hefur stjórnarhætti hérlendis til margra ára. Og áfram skal haldið.

Ræður:

  • Laufey Ólafsdóttir, formaður einstæðra foreldra
  • Andrés Magnússon, geðlæknir

Fundarstjóri er: Hörður Torfason.

Categories: Útifundir Tags:
  1. Magnus Hannibal
    February 6th, 2009 at 21:32 | #1

    Til hamingju. Við skulum ekki gefast upp. Því miður kemst ég ekki í þetta sinn en verð með ykkur í huganum. Við horfum uppá dapurlegar umræður um Seðlabankastjórana og maður áttar sig æ betur á því hversu djúpt þessir sjálfskipuðu forráðamenn íslenska haggerfisinns eru sokknir. Það er engu líkara en þar fari sinnisveikir þráhyggjusjúkklingar sem koma ekki auga á eigin sjúkdóm. Hættum ekki fyr en þeir eru farnir og búið verður að setja þá í nálgunnarbann við Seðlabankann sem og aðrar fjármálastofnannir. Við munum halda áfram að mæta og mæta og berja í potta og trommur þangað til þessum hryllingi lýkur.

Comments are closed.