Home > Útifundir, Tilkynningar > #17 – Laugardagur 31. janúar

#17 – Laugardagur 31. janúar

January 30th, 2009 ritstjorn

Sautjándi mótmælafundur Radda fólksins verður haldinn á Austurvelli laugardaginn 31. janúar nk. kl. 15:00.

Yfirskrift fundarins er sem fyrr Breiðfylking gegn ástandinu.

Í sautján vikur hafa Raddir fólksins barist gegn flokksræði og siðleysi í íslenskum stjórnmálum. Tugþúsundir Íslendinga hafa flykkst á Austurvöll til að knýja fram virkt lýðræði og nýja stjórnarskrá.

Með samstilltu átaki fjöldans og einbeittum markmiðum hefur okkur tekist að ná glæsilegum áfangasigri. Ein óvinsælasta stjórn Íslandssögunnar er fallin, boðað hefur verið til kosninga og búið er að víkja stjórn Fjármálaeftirlitsins frá störfum.

Eftir er þó lokavígi landráða og valdagræðgi í íslenskri flokkspólitík. Stjórn Seðlabankans situr enn. Þeir vanhæfu einstaklingar sem þar sitja verða að víkja tafarlaust og sæta ábyrgð fyrir embættisafglöp.

Ávörp og ræður:

 • Viðar Hreinsson, bókmenntafræðingur
 • Katrín Snæhólm Baldursdóttir, listakona
 • Viðar Þorsteinsson, heimsspekingur

Fundarstjóri er Hörður Torfason

Búsáhaldaboogie á NASA

Að kvöldi dags, laugardaginn 31. janúar, halda Raddir fólksins sigurtónleika, Búsáhaldaboogie, á NASA. Mugison, Sudden Weather Change, Reykjavík, Erpur og XXXRottweiler og Jeff Who troða upp með tilþrifum og halda byltingunni gangandi fram á rauða nótt. Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl. 23:00. Aðgangseyrir er kr. 1000,- og rennur óskiptur til Radda fólksins.

 1. þórhallur sævarsson
  January 30th, 2009 at 22:03 | #1

  Ég sé hvergi neina byltingu! Samfylkingin, helmingur einnar óvinsælustu ríkisstjórnar Íslandssögunnar, situr ennþá við kjötkatlana – skækjan hefur breyst í Maddömuna. Steingrímur Joð og Ögmundur sem fóru mikinn í ræðupúlti Alþingis um að skila AGS láninu, frystingu eigna auðmanna og í andstöðu sinni við ESB, tala núna um raunsæi í málefnum AGS og um að “liðka fyrir”inngöngu í ESB. Við erum ennþá föst í sama gamla stólaleiknum, það var bara skipt inná í hálfleik og ekkert bólar á hinu “Nýja Íslandi”. Það virðast allir vera tilbúnir í selja pólitíska sál sína. Það kostar bara góðan stól.

  Þannig að ég spyr aftur: Hvar er byltingin? Hverju á að fagna á sigurtónleikum á Nasa? Þið talið um að lokavígi landráða og valdagræðgi, stjórn Seðlabankans, verði að víkja. Ekki mótmæli ég að hún verði að víkja og þó fyrr hefði verið. En ef stjórn Seðlabankans og Guðfaðirinn eru virkilega stærsta vandamál Íslands í dag, þá veit ég ekki alveg hvað ég hef verið að gera á Austurvelli alla þessa laugardaga…

  Jú, áfangasigur ekki spurning. En að mínu mati er lokavígi landráða og valdagræðgi í íslenskri flokkspólitík ekki DO, heldur sjálft flokksræðið! Þar breytist ekkert, þar er mönnum ekkert heilagt þegar völd og pólitík eru annars vegar. Ég spyr: Hvar er nýja lýðræðið og persónukosningarnar? Höfum við unnið sigur á flokksræði og siðleysi? Ég sé ekkert nema sama skítinn úr nýjum rassi!

  Sigurhátíð við þetta tilefni finnst mér móðgun, en verst finnst mér þó hvernig þetta gefur sögusögnum um vensl Radda Fólksins og Vinstri-Grænna byr undir báða vængi…

  Við höfum unnið orrustu en stríðið er langt frá búið. Betur má ef duga skal!

 2. Anna María
  January 30th, 2009 at 23:59 | #2

  Ekki fagna of snemma. Martröðin er rétt að byrja.

 3. jón jóns
  January 31st, 2009 at 00:49 | #3

  Hvaða andskotans bull er þetta að standa upp núna og fara að fagna í miðju stríði ? Eina sem er búið að gerast er að helmingur ríkisstjórnarinar er farinn frá, Samfylkingin er þarna enþá !!!

 4. Freyja
  January 31st, 2009 at 02:51 | #4

  Æðislegt..æðislegt – en munum nú að ganga hægt um gleðinnar dyr! Þessi upptalning að ofan finnst mér (sem mótmælanda) alls ekki vera tæmandi eða fullnægjandi. Við skulum aðeins horfa lengur en nef okkar nær – það tekur lengri tíma að fá ALLT það réttlæti sem landið hefur soooofið yfir til baka. Þetta er eins og með aukakílóin!! Ef við ætlum að halda “sigur” hátíð núna þá erum VIÐ alveg að glata því sem að lögðum upp með. Það er bara hálfur (ef það er svo mikið) sigur náður núna. Við skulum standa við sameiginlegt markmið okkar og krefjast í fyrsta sinn LÝÐRÆÐIS á Íslandi!! Það er svo margt ógert – og við skulum ekki falla í þann gamla pytt að fagna alltaf þegar fyrsti steinninn er kominn í húsið – það er nóg að húsum í þessu landi sem er að gera okkur að “drauga landi”. Við þurfum ekki meir að svona “hátíðum”!!! Göngum hægt um gleðinnar dyr:)

 5. Valur
  February 6th, 2009 at 00:10 | #5

  Á að láta ríkisbankana vera óbreytta þ.e. gamla liðið stýrir áfram?

Comments are closed.