Home > Fréttatilkynningar > Áfangasigrar í langri baráttu

Áfangasigrar í langri baráttu

January 26th, 2009 ritstjorn

Raddir fólksins fagna löngu tímabærum afsögnum Geirs H. Haarde forsætisráðherra og Björgvins G. Sigurðssonar viðskiptaráðherra. Ástæða er til að benda á að fyrrverandi viðskiptaráðherra sá sóma sinn í að axla pólitíska ábyrgð og viðurkenna þátt sinn í efnahagslegri óstjórn fráfarandi ríkisstjórnar en fyrrverandi forsætisráðherra hverfur frá völdum nauðugur viljugur, án þess að biðja þjóðina afsökunar á axarsköftum sínum.

Það er fagnaðarefni þegar ein óvinsælasta ríkisstjórn í sögu lýðveldisins hverfur loksins frá völdum. Þessi niðurstaða fékkst með órofa samstöðu þjóðarinnar og sögulegum mótmælaaðgerðum. 80% þjóðarinnar reis upp og sagði pólitískri spillingu og flokksræði stríð á hendur. Ljóst er að landsmenn geta ekki sætt sig við að vanhæfir þingmenn geri enn eina atlöguna að lýðræðinu. Við krefjumst þess að utanþingsstjórn verði mynduð án tafar og þingmenn verði látnir axla ábyrgð.

Fráfarandi ríkisstjórn var búin að gefa ádrátt um kosningar 9. maí n.k. Nú hafa mál skipast þannig að fráfarandi forsætisráðherra er búinn að skila umboði sínu og við blasir að stjórnarkreppa ríkir í landinu. Við þessar aðstæður er óásættanlegt að umboðslausir stjórnmálamenn véli með dagsetningu kosninga. Þjóðin sjálf verður að taka af skarið og ákveða réttan tíma fyrir kosningar að því tilskyldu að fyrir liggi drög að nýrri stjórnarskrá og trygging fyrir því að gamla siðspillta flokksræðið hverfi á öskuhauga sögunnar.

Fyrir liggur að fráfarandi viðskiptaráðherra tók loksins á sig rögg í gær og rak forstjóra og stjórn Fjármálaeftirlitsins. Um leið og Raddir fólksins fagna þessari aðgerð viljum við benda á að samkvæmt fréttum mun fráfarandi forstjóri ekki láta af störfum fyrr en 1. mars nk. Auk þess var það síðasta verk stjórnar Fjármálaeftirlitsins að ganga frá starfslokasamningi við fráfarandi forstjóra upp á liðlega tuttugu milljónir króna. Það er skilyrðislaus krafa Radda fólksins að forstjóri Fjármálaeftirlitsins víki tafarlaust og starfslokasamningur við hann verði ógiltur.

Ástæðulaust er að fjölyrða um dapurlega stöðu stjórnar Seðlabankans. Vitað er að hún hefur ekkert traust landsmanna og erlendis er hún aðhlátursefni. Soldáninn á Svörtuloftum situr og situr og situr meðan þjóðinni blæðir út. Hann hefur treyst á tangarhald sitt á fráfarandi forsætisráðherra og beitt siðleysi og blekkingum til að breiða yfir eigin valdníðslu og landráð. Því verður einfaldlega ekki unað deginum lengur að gjörsamlega vanhæfur uppgjafarstjórnmálamaður véli með fjöregg þjóðarinnar. Stjórn Seðlabankans verður að víkja.

Categories: Fréttatilkynningar Tags:
  1. January 27th, 2009 at 05:30 | #1

    Varðandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Það er stjórn FME sem ræður hann og þar sem stjórnin hefur sagt af sér er eðlilegt að forstjórinn sitji þangað til ný stjórn hefur verið skipuð því það er hennar að ráða nýjan forstjóra. FME getur ekki verið hauslaust í millitíðinni og því er eðlilegt að hann sitji fram að þeim næsta. Starfslokasamningurinn er svo aftur annað mál.
    sjá: http://www.fme.is/?PageID=99 og http://www.fme.is/?PageID=100

  2. Freyr
    January 27th, 2009 at 13:58 | #2

    Held að það sé full ástæða til að efla mótmælin enn frekar ef þetta er það stjórnarsnið sem menn eru að horfa upp á. VG eiga ekkert erindi í ríkisstjórn og því á að mótmæla eins og áframhaldandi veru Samfylkingar. Við þjóðin viljum utanþingsstjórn ef þessir flokkar koma sér ekki sama um þjóðstjórn! Hvað segir Hörður Torfason um það?

Comments are closed.