Home > Kröfur > Tafarlaus rannsókn á falli Glitnis

Tafarlaus rannsókn á falli Glitnis

December 12th, 2008 ritstjorn

Fimmtudaginn 11. desember sl. báðu talsmenn Radda fólksins Ríkissaksóknara um tafarlausa rannsókn á falli Glitnis á grundvelli X. kafla almennra hegningarlaga.

Ljóst er að þrátt fyrir þrálátan orðróm um meinta refsiverða háttsemi þátttakenda í falli Glitnis og setningu neyðarlaga í kjölfarið hefur dómsvaldið enn ekki hafist handa um rannsókn málsatvika.

Á síðustu dögum hefur komið fram að endurskoðendur stærstu hluthafa Glitnis hafa mánuðum saman verið í fullri vinnu við að endurskoða sjálfa sig án vitneskju yfirstjórnar Fjármálaeftirlitsins og bankamálaráðherra um meint ólögmæt hagsmunatengsl.

Þá hefur einnig komið fram að formann bankastjórnar Seðlabankans og forsætisráðherra greinir á um grundvallaratriði í undanfara falls Glitnis.og fjármálaráðherra er uppvís af missögnum og grundvallarþekkingarleysi í aðkomu að málinu.

Í þessari grafalvarlegu stöðu, þar sem sjálfum grundvelli réttarríkisins er ógnað af þeim sem síst skyldu, hefur dómsvaldið brugðist skyldum sínum. Ljóst er að dómsmálaráðherra hefur sýnt vítavert sinnuleysi í viðbrögðum við einum stærsta vanda sem dunið hefur yfir þjóðina. Dómsmálaráðherra ber því að axla ábyrgð og segja tafarlaust af sér.

Categories: Kröfur Tags:
Comments are closed.