Home > Fréttir > Jólakveðjur til þingmanna

Jólakveðjur til þingmanna

December 24th, 2008 ritstjorn

Alþingismenn, Rikisstjórn Íslands.

Um leið og Raddir fólksins senda þingmönnum og ríkisstjórn landsins jólakveðjur viljum við vinsamlegast biðja ykkur að nota kyrrð jólanna til að íhuga stöðu ykkar.

Vikum saman hefur krafa þúsunda Íslendinga á Austurvelli verið skýr. Við krefjumst þess að ríkisstjórnin og stjórnir Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins víki tafarlaust.

Þrátt fyrir að kannanir sýni óyggjandi að ríkisstjórnin er rúin trausti þorra landsmanna og almenn krafa er uppi um tafarlausa uppstokkun og kosningar stritar stjórnin við að sitja í óþökk þjóðarinnar.

Enginn ykkar hefur séð sóma sinn í að axla pólitíska ábyrgð á þeim efnahagslegu hryðjuverkum sem þið hafið leitt yfir þjóðina. Embætti ríkissaksóknara er haldið í fjársvelti, efnahagsdeild lögreglunnar er nánast þurrkuð út og sömu bankamennirnir og útrásarvíkingarnir glíma við rústabjörgun í skjóli stjórnmálamanna.

Raddir fólksins hafa mótmælt landráðum ykkar á friðsamlegan hátt með von um að þið sýnið af ykkur þann manndóm að biðja þjóðina opinberlega afsökunar á framferði ykkar og viðurkenna vanmátt ykkar og getuleysi að ráða við ástandið.

Það verður hins vegar ljósara með hverjum degi sem líður að einbeittur vilji ríkisstjórnar að ganga á svig við lýðræðið í landinu kallar á siðrof milli þings og þjóðar.

Það siðrof mun óhjákvæmilega hafa í för með sér harðari mótmæli þorra landsmanna og einbeittari kröfur um tafarlausa afsögn ríkisstjórnarinnar. Landsmenn láta ekki ráðalausa ríkisstjórn kúga sig.

Categories: Fréttir Tags:
Comments are closed.