Archive

Archive for the ‘Tilkynningar’ Category

#17 – Laugardagur 31. janúar

January 30th, 2009 ritstjorn 5 comments

Sautjándi mótmælafundur Radda fólksins verður haldinn á Austurvelli laugardaginn 31. janúar nk. kl. 15:00.

Yfirskrift fundarins er sem fyrr Breiðfylking gegn ástandinu.

Í sautján vikur hafa Raddir fólksins barist gegn flokksræði og siðleysi í íslenskum stjórnmálum. Tugþúsundir Íslendinga hafa flykkst á Austurvöll til að knýja fram virkt lýðræði og nýja stjórnarskrá.

Með samstilltu átaki fjöldans og einbeittum markmiðum hefur okkur tekist að ná glæsilegum áfangasigri. Ein óvinsælasta stjórn Íslandssögunnar er fallin, boðað hefur verið til kosninga og búið er að víkja stjórn Fjármálaeftirlitsins frá störfum.

Eftir er þó lokavígi landráða og valdagræðgi í íslenskri flokkspólitík. Stjórn Seðlabankans situr enn. Þeir vanhæfu einstaklingar sem þar sitja verða að víkja tafarlaust og sæta ábyrgð fyrir embættisafglöp.

Ávörp og ræður:

 • Viðar Hreinsson, bókmenntafræðingur
 • Katrín Snæhólm Baldursdóttir, listakona
 • Viðar Þorsteinsson, heimsspekingur

Fundarstjóri er Hörður Torfason

Búsáhaldaboogie á NASA

Að kvöldi dags, laugardaginn 31. janúar, halda Raddir fólksins sigurtónleika, Búsáhaldaboogie, á NASA. Mugison, Sudden Weather Change, Reykjavík, Erpur og XXXRottweiler og Jeff Who troða upp með tilþrifum og halda byltingunni gangandi fram á rauða nótt. Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl. 23:00. Aðgangseyrir er kr. 1000,- og rennur óskiptur til Radda fólksins.

Mótmælastaða við Alþingishúsið þriðjudaginn 20. janúar

January 19th, 2009 ritstjorn Comments off

Undanfarnar vikur hafa kröfur almennings orðið æ háværari um aukinn slagkraft mótmæla á Austurvelli. Auk ræðuhalda á laugardögum hafa margir beðið um hávær en friðsamleg mótmæli í miðri viku.

Í tilefni af setningu Alþingis á morgun, þriðjudaginn 20. janúar, hafa Raddir fólksins því ákveðið að hvetja til mótmælastöðu við Alþingishúsið kl. 13:00.

Fólk er hvatt til að hafa með sér söngbækur, sleifar, potta og pönnur, hrossabresti og flautur og allt hvaðeina sem nota má til að framleiða hávaða. Gera má ráð fyrir að mótmælastaðan taki rúman klukkutíma.

Íslendingar verða að vekja þingheim af Þyrnirósarsvefni. Nauðsynlegt er að lýðræðiskjörnir fulltrúar fólksins hætti að hunsa kröfur mikils meirihluta þjóðarinnar. Stjórnir Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins verða að víkja tafarlaust og.ríkisstjórnin verður að segja af sér og boða til kosninga hið fyrsta.

Categories: Útifundir, Fundir, Tilkynningar Tags:

Fjórtándi mótmælafundurinn

January 9th, 2009 ritstjorn Comments off

Fjórtándi mótmælafundur Radda fólksins verður haldinn á Austurvelli laugardaginn 10. janúar nk. kl. 15:00.

Yfirskrift fundarins er sem fyrr Breiðfylking gegn ástandinu og kröfurnar skýrar:

 • Burt með ríkisstjórnina
 • Burt með stjórnir Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins
 • Kosningar svo fljótt sem unnt er

Samtökin Raddir fólksins hafa einbeitt sér að því að kalla til fólk úr öllum stéttum þjóðfélagsins til að bregða ljósi á það skelfilega stjórnmála- og efnahagsástand sem ríkir í landinu.

Á undanförnum vikum og mánuðum hafa liðlega 40 manns flutt ræður og ávörp á Austurvelli og öflugur hópur manna hefur starfað við undirbúning og umsjón með fundunum. Öllum þessum röddum fólksins ber að þakka mikið og óeigingjarnt starf.

Að þessu sinni flytja ávörp og ræður:

 • Þorvaldur Þorvaldssson, trésmiður
 • Lilja Mósesdóttir, hagfræðingur
 • Lárus Páll Birgisson, sjúkraliði

Fundarstjóri er Hörður Torfason

Categories: Tilkynningar Tags:

Breytingar á mótmælum á Austurvelli

December 10th, 2008 ritstjorn Comments off

Síðastliðinn laugardag, 6. desember, voru boðaðar breytingar á mótmælum þeim sem hafa verið haldin á Austurvelli síðan 11. október undir yfirskriftinni Breiðfylking gegn ástandinu. Einnig var skýrt frá því að gripið yrði til ýmissa aðgerða sem verða tilkynntar fjölmiðlum með stuttum fyrirvara. Nú verður breyting á formi mótmælanna.

Sem fyrr hefjast þau stundvíslega klukkan 15.00 á Austurvelli þegar Dómkirkjuklukkan slær. En í stað þess að hlusta á ræður er fólk hvatt til að líta til Alþingishússins, lúta höfði og hafa þögn í nákvæmlega 17 mínútur.

Kröfurnar eru enn þær sömu og fyrr:

 • Núverandi stjórn Seðlabankans víki tafarlaust.
 • Núverandi stjórn Fjármáleftirlitsins víki tafarlaust.
 • Kosningar sem fyrst.

Tekið skal fram að mótmælin og allar aðgerðir á vegum Radda fólksins eru alltaf friðsamlegar.

Fundarstjóri er sem fyrr; Hörður Torfason.

Categories: Tilkynningar Tags: