Archive

Archive for the ‘Ræður’ Category

Ræða Sigríðar Ólafsdóttur á Austurvelli 19.01.2013

January 21st, 2013 admin Comments off

Ágætu fundarmenn!

Eftir nokkurt hlé erum við aftur komin saman til fundar á Austurvelli. Það gerum við vegna þess, að það er rík ástæða til. Þið, ég og ótalmargir fleiri sjá blikur á lofti í stjórnarskrármálinu. Úrtöluraddir heyrast, úr þinginu, frá forsetanum og frá fræðimönnum. En kjósendur hafa gefið skýr skilaboð um að halda skuli áfram. Það gerðum við í kosningunum 20. október, s.l. Af hverju svara þingmennirnir ekki óskum okkar? Hvað er vandamálið?

Á mánudaginn er fjögurra ára afmæli búsáhaldabyltingarinnar sem miðast við 21. janúar, daginn sem loguðu eldar á Austurvelli. Við gerðum okkur grein fyrir því að við höfðum verið blekkt, hér var ekkert góðæri, heldur voru nokkrir samlandar okkar búnir að vera á fylleríi á kostnað almennings. Leikreglur samfélagsins virkuðu ekki. Eftirlit með reglunum virkaði ekki. Stjórnendur mikilvægra stofnana höfðu brugðist. Almenningur setti fram kröfu um Nýtt Ísland. Nýtt og betra Ísland.

Hvað gerðum við okkur í hugarlund? Hvernig sáum við fyrir okkur að Nýja Ísland yrði?

Ég get sagt ykkur hvers ég óskaði:

Ég vildi nýjar reglur sem tækju mið af almannahagsmunum en ekki sérhagsmunum, og gerðu okkur kleift að uppræta spillingu og sérhagsmunagæslu í ráðningum embættismanna, lagasetningu og fjárlagagerð
Ég vildi að atkvæði allra hefði sama vægi í almennum kosningum

Ég vildi að almenningur fengi tækifæri til að hafa eftirlit með embættisfærslu starfsmannanna sem eru ráðnir hjá okkur til að starfa í okkar þágu

Ég vildi samfélag þar sem allir sitja við sama borð, Ísland, þar sem allir hafa jöfn tækifæri til að sýna hvað í þeim býr, sér og öðrum til gagns.

Ég vildi að menn þyrftu að axla ábyrgð gerða sinna

Ég vildi að allir ættu jafnan aðgang að auðlindum landsins og þröngir sérhagsmunahópar fengju ekki að
ráðskast með þær að vild
Ég vildi að náttúra Íslands nyti verndar

Ég vildi Ísland þar sem enginn þyrfti að vera svangur eða heimilislaus.

Flestir virtust sammála mér um þetta. Það kom fram á þjóðfundinum í nóvember 2010.
Þjóðfundurinn var haldinn til að komast að því hvað almenningi þætti mikilvægast að væri í nýrri stjórnarskrá. Það var gert með því að kalla saman um þúsund manns sem voru valdir með slembiúrtaki – allir áttu sömu möguleika á að taka þátt.

Lítum á hvernig nokkur lykilorð úr niðurstöðum þjóðfundarins birtast í nýja stjórnarskrárfrumvarpinu:
Eitt af lykilorðunum var „Réttlæti“: Nýja stjórnarskráin mun auka traust á dómstólum, –ráðningar dómara verða óháðar ráðherrum og pólitískum flokkadráttum – og sjálfstæði dómstóla er tryggt.
Annað orð var „Jafnrétti“: Samkvæmt nýju stjórnarskránni hafa allir sömu tækifæri til að njóta hæfileika sinna, lifa í friði og afla sér viðurværis. Nýtt kosningakerfi mun jafna atkvæðavægi.

Mannréttindakaflinn er endurnýjaður í anda þess sem best gerist í heiminum.
Skilaboð þjóðfundarins var um Land og þjóð og náttúru Íslands, vernd og nýtingu: Í nýju stjórnarskránni er haldið utan um markmið sjálfbærrar þróunar, þar er m.a. boðuð virðing fyrir náttúrunni og allir eigi rétt á heilnæmu umhverfi.

Þar er sagt að Náttúruauðlindir séu ævarandi eign þjóðarinnar. Þar er talað um þjóðareign – hugtak sem flækist fyrir sumum lögfræðingum en flækist ekki fyrir almenningi.

Þjóðfundurinn bað um Valddreifingu, ábyrgð og gegnsæi: Með upplýsingaákvæðunum fær almenningur óskoraðan rétt til að fylgjast með því hvað starfsmenn almennings eru að gera. Við eigum rétt á að vita í hvað skattpeningarnir okkar eru notaðir!

Frá 1944 höfum við beðið eftir endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins. Í heil 70 ár meðan stjórnarskrárnefnd þingsins ræddi og gerði tillögur, ræddi og gerði tillögur, gerðist lítið (og það litla sem gerðist var ekki alltaf í sátt, eins og margir hafa látið í veðri vaka).

Frumvarp stjórnlagaráðs sem lagt var fram í júlí 2011 setur nýjar reglur sem eru forsenda þess að óskir mínar um nýtt Ísland rætist.

Frumvarpið fékk ótvíræðan stuðning kjósenda í kosningunum um stjórnarskrá 20 október síðastliðinn þegar tveir þriðju hlutar þeirra sem kusu (67%) sögðust vilja að frumvarp Stjórnlagaráðs yrði grundvöllur að nýrri stjórnarskrá.

Almenningur hefur þannig látið í ljós skýran vilja sinn til að breyta stjórnarskránni, setja þá gömlu til hliðar og blása til nýrra tíma.

Nú er komið að þinginu

Frumvarpið hefur nú legið fyrir í 18 mánuði. Lögfræðingateymi hefur skilað áliti og nefndir þingsins hafa grandskoðað frumvarpið og sumar nefndir hafa skilað tillögum. Á meðan tifar klukkan. Það er stutt til kosninga. Það þarf að samþykkja stjórnarskrárfrumvarpið á þessu þingi til að það geti tekið gildi á næsta þingi. Ég er orðin óþolinmóð! Ég vil breytingar núna!

Stjórnarandstaðan og Forsetinn og hafa lýst efasemdum frumvarpið sem almenningur hefur sýnt svo afdráttarlausan stuðning. Eiga þau að skipta sér af því hvernig starfslýsingin þeirra er og hvaða verkefni almenningur felur þeim?

Líklega vilja þau fyrst og fremst eyðileggja stjórnarskrárferlið.

Hvað veldur þessari tregðu?

Eiga fulltrúar okkar ekki að fara eftir eindreginni niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar?
Vilja þingmenn og ráðherrar kannski ekki breyta valdsviði sínu?
Eru þeir að berjast gegn vilja almennings með sérhagsmunaöflunum?
Ætla þeir að fara að vilja kjósenda eða ekki?
Ef útölufólkið nær sínu fram, eigum við þá að þurfa að bíða önnur 70 ár eftir nýrri stjórnarskrá?

Engar mannanna reglur eru meitlaðar í stein. Þeim má breyta.

En einhvers staðar verður að byrja.

Ég stend hér og berst fyrir því að við eignumst nýja stjórnarskrá, ekki af því að mér finnist nýja stjórnarskráin fullkomin, eða að allt sé þar eins og ég vildi helst, heldur vegna þess að hópur manna sem ég treysti kom saman, byggði á reynslu og þekkingu síðustu áratuga, stjórnarskrám annarra landa og reynslunni af þeim, vinnu sérfræðinga, þingmanna og leikmanna, og kom sér saman um samfélagssáttmálann sem liggur fyrir. Ég treysti fólkinu í landinu.

Nýja stjórnarskráin tekur gömlu stjórnarskránni langt fram. Um það stendur valið: Gömlu eða nýju stjórnarskrána. Kjósendur hafa sagt vilja sinn. Nú er komið að þingmönnunum að gera það sem kjósendur vilja.

Því segi ég við þingmenn:

Gerið það sem þarf til að skapa traust á stjórnvöldum og farið að óskum kjósenda.

Látið ekki sjást að hagsmunir ykkar sjálfra vegi þyngra en fólksins í landinu.

Klárið stjórnarskrármálið fyrir kosningar eins og kjósendur ykkar hafa krafist!!

Categories: Ræður Tags:

Ávörp og ræður

October 11th, 2008 ritstjorn Comments off

Vinna er hafin við að safna saman ræðum ræðumanna og ávörpum.  Eftir þvi sem það verkefni vinnst munum við setja ræðurnar á PDF formi sem hlekk við hvern ræðumann.

Ræðumenn :

 • Andri Snær Magnússon, rithöfundur (asm151108)
 • Arndís Björnsdóttir, kennari  (ab1)
 • Björn Þorsteinsson, heimsspekingur (bþ271208)
 • Dagný Dimmblá, 8 ára skólastelpa (dd1)
 • Einar Már Guðmundsson, rithöfundur (em1, em2, emg030109)
 • Gerður Kristný, rithöfundur (gk1)
 • Gerður Pálma, atvinnurekandi í Hollandi (gp1)
 • Guðmundur Gunnarsson, formaður rafiðnaðarsambandsins (gg1)
 • Halldóra Guðrún Ísleifsdóttir, kennari og grafiskur hönnuður (hgi030109)
 • Hörður Torfason , söngvaskáld (ht1, ht2)
 • Illugi Jökulsson, rithöfundur (ij291108)
 • Jón Hreiðar Erlendsson (jhe1)
 • Katrín Oddsdóttir, laganemi (ko221108)
 • Kristín Helga Gunnarsdóttir, rithöfundur (khg1)
 • Kristín Tómasdottir, frístundaráðgjafi (kt290908)
 • Lárus Páll Birgisson, sjúkraliði (lpb1, lpb100109)
 • Lilja Mósesdóttir, hagfræðingur (lm1)
 • Pétur Tyrfingsson, sálfræðingur (pt1)
 • Ragnheiður Gestsdóttir, rithöfundur (rg1, rg2, rg3)
 • Ragnhildur Sigurðardóttir, sagnfræðingur (rs271208)
 • Sigurbjörg Árnadóttir, fyrrverandi fréttamaður RÚV í Finnlandi  (sa1)
 • Sindri Viðarsson,sagnfræðinemi (sv221108)
 • Stéfán Jónsson, leikstjóri (sj291108)
 • Viðar Þorsteinsson, heimspekingur (vþ151108)
 • Þorvaldur Gylfason, prófessor (þg181008)
 • Þorvaldur Þorvaldssson, trésmiður (þþ100109)
 • Þráinn Bertelsson, rithöfundur (þb1)

Ávörp :

 • Ernesto Ordiss (eo1)
 • Óskar Ástþórsson, leikskólakennari (oa1)

Óvæntir ræðumenn :

 • Birgir Þórarinsson
 • Sturla Jónsson, vörubílsstjóri
 • Kolfinna Baldvinsdóttir
Categories: Ræður Tags: