Archive

Archive for the ‘Fréttatilkynningar’ Category

Frystum eignir auðmanna

February 25th, 2009 ritstjorn 1 comment

Talsmenn Radda fólksins áttu fund með dóms- og kirkjumálaráðherra, Rögnu Árnadóttur, miðvikudaginn 25. febrúar sl. Tilefni fundarins var að kynna kröfu hreyfingarinnar, um kyrrsetningu eigna auðmanna, fyrir ráðherra.

Á fundinum fóru fram ítarleg og hreinskiptin skoðanaskipti um málið. Fram kom að starfsemi embættis sérstaks saksóknara, sem ætlað er að rannsaka grun um refsiverða háttsemi hvort sem hún tengist starfsemi fjármálafyrirtækja, annarra lögaðila eða einstaklinga, er komin á fullt skrið.

Ráðherra ítrekaði að saksóknari hefði lagaúrræði til að kyrrsetja eignir auðmanna og vilji væri fyrir hendi hjá ráðuneytinu að afgreiða tilskylda rannsóknarvinnu fljótt og vel.

Categories: Fréttatilkynningar Tags:

ASÍ vill að Davíð víki tafarlaust

February 12th, 2009 ritstjorn Comments off

Talsmenn Radda fólksins áttu fund með Gylfa Arnbjörnssyni forseta ASÍ miðvikudaginn 11. febrúar sl. Umræðuefni fundarins var ástandið í þjóðfélaginu og brýnar aðgerðir til að koma til móts við hagsmuni heimila og fyrirtækja í landinu. Á fundinum tók forseti ASÍ skýrt fram að Alþýðusamband Íslands væri sammála þeim kröfum sem Raddir fólksins hafa haft uppi á undanförnum vikum og mánuðum: Burt með ríkisstjórnina, burt með stjórnir Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans og kosningar svo fljótt sem unnt er. Einhugur var með talsmönnum Radda fólksins og forseta ASÍ um nauðsyn þess að bankastjórn Seðlabankans víki tafarlaust til að skapa aftur traust og tiltrú umheimsins á íslenskri bankastarfsemi.

Categories: Fréttatilkynningar Tags:

Áfangasigrar í langri baráttu

January 26th, 2009 ritstjorn 2 comments

Raddir fólksins fagna löngu tímabærum afsögnum Geirs H. Haarde forsætisráðherra og Björgvins G. Sigurðssonar viðskiptaráðherra. Ástæða er til að benda á að fyrrverandi viðskiptaráðherra sá sóma sinn í að axla pólitíska ábyrgð og viðurkenna þátt sinn í efnahagslegri óstjórn fráfarandi ríkisstjórnar en fyrrverandi forsætisráðherra hverfur frá völdum nauðugur viljugur, án þess að biðja þjóðina afsökunar á axarsköftum sínum.

Það er fagnaðarefni þegar ein óvinsælasta ríkisstjórn í sögu lýðveldisins hverfur loksins frá völdum. Þessi niðurstaða fékkst með órofa samstöðu þjóðarinnar og sögulegum mótmælaaðgerðum. 80% þjóðarinnar reis upp og sagði pólitískri spillingu og flokksræði stríð á hendur. Ljóst er að landsmenn geta ekki sætt sig við að vanhæfir þingmenn geri enn eina atlöguna að lýðræðinu. Við krefjumst þess að utanþingsstjórn verði mynduð án tafar og þingmenn verði látnir axla ábyrgð.

Fráfarandi ríkisstjórn var búin að gefa ádrátt um kosningar 9. maí n.k. Nú hafa mál skipast þannig að fráfarandi forsætisráðherra er búinn að skila umboði sínu og við blasir að stjórnarkreppa ríkir í landinu. Við þessar aðstæður er óásættanlegt að umboðslausir stjórnmálamenn véli með dagsetningu kosninga. Þjóðin sjálf verður að taka af skarið og ákveða réttan tíma fyrir kosningar að því tilskyldu að fyrir liggi drög að nýrri stjórnarskrá og trygging fyrir því að gamla siðspillta flokksræðið hverfi á öskuhauga sögunnar.

Fyrir liggur að fráfarandi viðskiptaráðherra tók loksins á sig rögg í gær og rak forstjóra og stjórn Fjármálaeftirlitsins. Um leið og Raddir fólksins fagna þessari aðgerð viljum við benda á að samkvæmt fréttum mun fráfarandi forstjóri ekki láta af störfum fyrr en 1. mars nk. Auk þess var það síðasta verk stjórnar Fjármálaeftirlitsins að ganga frá starfslokasamningi við fráfarandi forstjóra upp á liðlega tuttugu milljónir króna. Það er skilyrðislaus krafa Radda fólksins að forstjóri Fjármálaeftirlitsins víki tafarlaust og starfslokasamningur við hann verði ógiltur.

Ástæðulaust er að fjölyrða um dapurlega stöðu stjórnar Seðlabankans. Vitað er að hún hefur ekkert traust landsmanna og erlendis er hún aðhlátursefni. Soldáninn á Svörtuloftum situr og situr og situr meðan þjóðinni blæðir út. Hann hefur treyst á tangarhald sitt á fráfarandi forsætisráðherra og beitt siðleysi og blekkingum til að breiða yfir eigin valdníðslu og landráð. Því verður einfaldlega ekki unað deginum lengur að gjörsamlega vanhæfur uppgjafarstjórnmálamaður véli með fjöregg þjóðarinnar. Stjórn Seðlabankans verður að víkja.

Categories: Fréttatilkynningar Tags:

Áfengi og mótmæli eiga ekki saman

January 22nd, 2009 ritstjorn 2 comments

Raddir fólksins hvetja mótmælendur til að gera hlé á mótmælum eftir kl. 20:00 nk. föstudags- og laugardagskvöld. Ljóst er að áfengi og mótmæli eiga ekki saman og mikilvægt er að ábyrgir og friðsamir mótmælendur séu ekki bendlaðir við ofbeldisverk.

Við höfum unnið áfangasigur í baráttu við siðlaus og óbilgjörn stjórnvöld. Ríkisstjórnin situr þó enn þrátt fyrir að innan við fjórðungur landsmanna styðji hana – einræði aulanna er staðreynd. Verkefni morgundagsins er því að auka slagkraft mótmælanna um land allt. Fyllum Austurvöll nk. laugardag kl. 15:00.

Categories: Fréttatilkynningar Tags:

Mótmælastaða við Alþingishúsið

January 21st, 2009 ritstjorn 1 comment

Í tilefni af mótmælastöðu við Alþingishúsið þriðjudaginn 20. janúar og miðvikudaginn 21. janúar vilja Raddir fólksins koma eftirfarandi á framfæri.

Raddir fólksins hafa vikum saman reynt að ná eyrum ráðamanna þjóðarinnar til að vara þá við afleiðingum sofandaháttar og aðgerðaleysis. Rætt hefur verið við ríkissaksóknara, viðskiptaráðherra, fjármálaráðherra og forsætisráðherra.

Á þessum fundum hefur boðskapur okkar verið skýr: Það er knýjandi nauðsyn að ríkisstjórnin bregðist tafarlaust við og skipi nýjar stjórnir Seðlabanka og Fjármálaeftirlits, segi af sér og boði til nýrra kosninga.

Því miður hefur ríkisstjórnin þverskallast við að fara að vilja landsmanna. Því er óhjákvæmilegt að þjóðin rísi upp og tjái ráðamönnum vilja sinn á þann kröftuga hátt sem við höfum orðið vitni að í gær og í dag.

Raddir fólksins leggja áherslu á friðsamleg mótmæli og harma að saklausir sjónarvottar hafi orðið fyrir barðinu á tilviljanakenndri valdbeitingu lögreglunnar. Á sama hátt er ljóst að hlutverk lögreglunnar er ekki öfundsvert við þessar aðstæður.

Categories: Fréttatilkynningar Tags: