Archive

Archive for the ‘Áskoranir’ Category

Áskorun til forseta Íslands

December 17th, 2008 ritstjorn Comments off

Við landsmenn förum þess einarðlega á leit við yður, hæstvirtan forseta Íslands Ólaf Ragnar Grímsson, að þér í krafti embættisins hafnið samþykki á fjárlögum þeim sem núverandi ríkisstjórn hefur lagt fram.

Fjárlagafrumvarpið mun velta gríðarlegum skuldaklafa yfir á almenning í landinu til margra ára, skuldum sem til var stofnað af óheilindum af hálfu athafnamanna sem störfuðu í skjóli stjórnmálaflokka, stjórnsýslu og stofnanaumhverfis sem hafa algerlega brugðist hlutverki sínu.

Frumvarpið er mesta aðför sem nokkru sinni hefur verið gerð að sjúkrahúsum, heilbrigðisstofnunum, öldrunarheimilium, framhaldsskólum, háskólum og flestum öðrum þeim stofnunum sem almennt gera Ísland að vestrænni menningarþjóð. Það eykur misskiptingu í samfélaginu, leggur auknar álögur á þá sem minnst mega sín og neyðir fleiri en ella til að draga fram lífið á bótum sem ekki duga til framfærslu.

Frumvarpið festir í sessi þá ætlun ríkstjórnarinnar að láta almenning í landinu borga brúsann fyrir fjármálaóreiðu, ábyrgðarleysi og óheilindi fjárglæframanna og vina þeirra í núverandi og fyrrverandi ríkisstjórn í stað þess að sækja þá til saka sem raunverulega ábyrgð bera.

Frumvarpið mun einnig staðfesta hagstjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins yfir Íslandi næstu árin og binda börn okkar og jafnvel barnabörn á skuldaklafa um langt árabil. Frumvarpið er samið að tilmælum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og undir þrýstingi og jafvel kúgun frá ESB og er því aðför að fullveldi Íslands.

Núverandi ríksstjórn ber að stórum hluta ábyrgð á hvernig komið er og er rúin trausti. Þar sem hún var kjörin við allt aðrar aðstæður og til allt annara verka er hún í sjálfu sér umboðslaus til að takast á við verkefnið. Þar sem núverandi Alþingi hefur að því er virðist nánast lagt sjálft sig niður, þá er það óskoruð krafa okkar að þér synjið frumvarpinu samþykkis og að það muni í framhaldinu finna viðeigandi sess á öskuhaug sögunnar.

Ef einhvern tíma í sögu lýðveldisins hefur tilefni verið til slíkrar aðgerðar er það nú. Við landsmenn eigum skýlausan lýðræðislegan og siðferðislegan rétt til þess að fá að segja hug okkar um þetta frumvarp og þar með framtíð þjóðarinnar, í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Landsmenn gegn ríkisstjórninni

 Ef þú ert sammála þá vinsamlegst klipptu afrit af áskoruninni og límdu í tölvupóst til forseti@forseti.isoth@forseti.is

Vinsamlega senda “Cc” á netfangið askorun@this.is - svo við getum fengið einhverja hugmynd um hversu margir taka þátt.

Categories: Áskoranir Tags:

Áskorun

October 31st, 2008 ritstjorn Comments off

Í þeirri upplausn og ringulreið sem einkennir íslenskt samfélag um þessar mundir kalla ég eftir alvarlegri, ítarlegri og fjölbreyttri umræðu. Undanfarin ár og áratugi hafa mörg af verðmætustu gildum íslensks samfélags glatast.

Ég skora á forvígismenn mennta, viðskipta, verkalýðs og verslunar að standa að opinni, heiðarlegri umræðu og skipa sitt hæfasta fólk í nefnd sem hefur það að markmiði að móta nýja stefnu í þjóðmálum okkar Íslendinga.

Þjóðin þarf að fá skýra og heiðarlega yfirsýn yfir vandann og þær lausnir sem slíkur hópur eygir, þjóðin getur sameinast um og hvetur til að stefnt sé að. Hver er staða okkar? Hvað olli henni? Hvað getum við lært? Hvert viljum við stefna? Hvernig getum við náð markmiðum okkar og endurheimt þau gildi sem við viljum hafa í hávegum?

Reykjavík 31.okt. 2008
Hörður Torfason

Categories: Áskoranir Tags: