Home > Fréttir > Forsætisráðherra krafinn svara í IceSave málinu

Forsætisráðherra krafinn svara í IceSave málinu

January 5th, 2009 ritstjorn

Í gær, sunnudaginn 4. janúar, vöktu samtökin In Defence of Iceland (www.indefence.is) rækilega athygli í fjölmiðlum á þeirri alvarlegu stöðu sem blasir við Íslendingum í Icesave málinu. Mánuðum saman hafa samtökin barist hetjulegri baráttu innan íslenska stjórnkerfisins fyrir því að stjórnvöld nýti sér rétt Íslendinga til að höfða mál gegn bresku stjórninni vegna setningar hryðjuverkalaga 8. október 2008 og yfirtökunni á Kaupþing Singer & Friedlander. Legið hefur fyrir að réttur til að áfrýja yfirtöku Kaupþings Singer & Friedlander rennur út miðvikudaginn 7. janúar nk.

Þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir hafa íslensk stjórnvöld ekki viljað svara því skýrt hvort þau hyggjast nýta þá sjálfsögðu og eðlilegu leið að stefna Bretum og krefja þá um bætur fyrir það gríðarlega tjón sem setning hryðjuverkalaganna og yfirtaka Kaupþings Singer & Friedlander olli íslensku þjóðinni. Fullyrt hefur verið að rekja megi fall Landsbankans og Kaupþings beint til þessa gerræðis Breta.

Ljóst er að með setningu neyðarlaga í skjóli nætur á Alþingi 7. október sl. varð algjör trúnaðarbrestur milli íslenskra og breskra stjórnvalda. Bretar fullyrða að stjórnvöld þeirra hafi ekki fengið viðunandi skýringar íslenskra stjórnvalda á stöðu breskra innistæðueigenda varðandi Icesave-reikninga Landsbankans, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Athyglisvert er að þeir telja að barnalegar þrætur hafi verið uppi milli breskra og íslenskra ráðherra og að málið hafi í alla staði verið ófaglega unnið.

Því verður ekki trúað að ríkisstjórn Íslands ætli að láta málskotsréttinn renna sér úr greipum án þess að grípa til varna í málinu. Raddir fólksins krefjast þess hér með að forsætisráðherra svari undanbragðalaust hvort stjórnvöld ætli að láta bresku stjórnina kúga íslenska borgara til að taka á sig mörghundruðmilljarða greiðslur vegna uppgjörs á meintum skuldum Íslendinga í Icesave málinu. Ef vilji íslenskra stjórnvalda stendur raunverulega til þess að láta málið fjara út verður það ekki skilið öðru vísi en svo að alvarlegir meinbugir í íslenskri stjórnsýslu þoli ekki dómsmeðferð.

Categories: Fréttir Tags:
Comments are closed.