Home > Útifundir > #16 – Laugardagur 24. janúar

#16 – Laugardagur 24. janúar

January 23rd, 2009 ritstjorn

Sextándi mótmælafundur Radda fólksins verður haldinn á Austurvelli laugardaginn 24. janúar nk. kl. 15:00.

Yfirskrift fundarins er sem fyrr Breiðfylking gegn ástandinu og kröfurnar skýrar:

 • Burt með ríkisstjórnina
 • Burt með stjórnir Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins
 • Kosningar svo fljótt sem unnt er

Raddir fólksins harma alvarleg veikindi Geirs H. Haarde forsætisráðherra og óska honum velfarnaðar og góðs bata. Við fögnum velheppnaðri aðgerð á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra og bjóðum hana velkomna heim.

Ljóst er að stuðningsmenn friðsamlegra mótmæla hafa unnið þrekvirki. Þúsundir mótmælenda hafa mótmælt vanhæfri ríkisstjórn látlaust síðustu daga og viðbrögð grasrótarinnar í Samfylkingunni bera þess ótvíræð merki að síðustu dagar þessarar valdstjórnar eru að renna upp.

Þrátt fyrir áfangasigur með yfirlýsingu um kosningar 9. maí nk. má ekki slaka á. Þjóðin getur ekki búið við vanhæfa ríkisstjórn deginum lengur. Sömu stjórnirnar sitja sem fastast í Seðlabanka og Fjármálaeftirliti og útrásarvíkingarnir leika lausum hala. Sameinumst um að reka endahnút á siðleysi og spillingu – hefjum vorhreingerningar í íslenska stjórnkerfinu.

Ávörp og ræður:

 • Magnús Björn Ólafsson, blaðamaður
 • Hildur Helga Sigurðardóttir, blaðamaður
 • Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, stjórnsýslufræðingur
 • Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur

Fundarstjóri er Hörður Torfason.

 1. Inga Helgadóttir
  January 24th, 2009 at 09:50 | #1

  Sammála eftirfarandi:
  Burt með ríkisstjórnina
  Burt með stjórnir Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins
  Kosningar svo fljótt sem unnt er

  Við þetta má bæta:
  Burt með alla alþingismennina því þeir sváfu á verðinum og eru jafnsekir öllum hinum forsvarsmönnum okkar.
  Neyðarstjórn sem fyrst og breytingar á kosningakerfinu. Framkvæmum tillögur Njarðar P. Njarðvíks um nýtt Ísland.

 2. January 24th, 2009 at 18:06 | #2

  Þetta var virkilega góð samkoma. Fínt að fá landslið trommusnillinga til að berja taktinn í fólkið. Kórinn var líka góður.
  Þetta er allt á réttri leið. Höldum baráttunni áfram!

 3. guðrún
  January 24th, 2009 at 20:40 | #3

  Já svo sannanlega verða mótmæli,ég trúi ekki að fólk gefist upp.
  Ástandið í þjóðfélaginu er óásættanlegt, ríkistjórnin er óstarfhæf,
  með fullri virðinu fyrir Geir Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu, ég óska þeim góðs bata. Því miður þurfa lögreglumenn að verja lög og reglu í landinu og verða fyrir barðinu á óeirðarseggjum. Ég styð friðsamleg mótmæli og þakka Herði Torfasyni stórþjóðlagasöngvara fyrir sitt frábæra framtak.

  Ísland lifi og þjóðin með.

 4. Árný
  January 24th, 2009 at 21:23 | #4

  Auðvitað hefur maður samúð með manni sem greinist með krabbamein…. en hefur maður eitthvað meiri samúð með honum en öðru fólki í landinu, hvort sem það er veikt, atvinnulaust, fátækt osfrv. Öll mín samúð fer til íslensku þjóðarinnar þar sem hún verður í gífurlega alvarlegri og slæmri stöðu á næstu árum. Mín samúð fer til barnanna, eldra fólks, öryrkja, og þeirra sem þegar voru fátækir í góðærinu. Sjálfur kallaði Geir mótmælendur skríl og Ingibjörg Sólrún sagði um þá 2000 sem mættu á borgarafund að þeir væru ekki þjóðin, en gildir þá ekki sjónarmið hluta Íslendinga. Það er nú alltaf hægt að margfalda þá sem mæta með 10 til að fá út stuðninginn við þessi mótmæli. Innan þessa hóps var mjög líklega fólk sem er líka veikt, skiptir það ekki eins miklu máli og Geir. Geir er ekkert heilagur. Og sorrí þegar maður kemur fram með svona upplýsingar, má maður þá ekki skilja það sem pólitískt útspil…. Lifi appelsínugula byltingin!

 5. Kolbrún Valvesdóttir
  January 24th, 2009 at 23:53 | #5

  Aldeilis frábær fundur í dag, þvílík stemming!
  Við eigum að halda þeim áfram þar til gengið er að kröfum okkar;
  ríkisstjórnina burt,
  LOFORÐ um kosningar,
  stjórn Seðlabanka burt,
  stjórn FME burt,
  útrásarkallana í varðhald og miljarðarnir gerðir upptækir,
  flokkarnir sem stóðu að útrásinni ættu að sitja hjá í eina umferð (eins og í Matador) þ.e. ekki að bjóða fram í næstu kosningum
  og örugglega e-ð fleira sem ég man ekki í bili.

 6. Lárus
  January 25th, 2009 at 20:35 | #6

  Er hægt að hlusta á 16. fund radda fólksins á netinu?
  Á heimasíðu RUV rás 2 er hægt að hlusta á svo til alla
  dagskrárliði 24. jan. nema “15:00 Mótmælafundur á Austurvelli”

  http://dagskra.ruv.is/ras2/4439889/2009/01/24/

  Vonandi gengur okkur vel í að semja nýjar leikreglur fyrir þjóðfélagið á næstu mánuðum.

 7. Jóna
  January 25th, 2009 at 21:54 | #7

  Frábær ræða hjá Guðmundi Andra :-)

 8. Pétur Knútsson
  January 25th, 2009 at 22:37 | #8

  Jú, fundinum var útvarpað á Rás 2 – en ekki er hægt að hlusta á hann á vefsíðu RÚV. Hlekkurinn er http://dagskra.ruv.is/ras2/4461740/2009/01/24/
  en hann er ennþá stilltur á “bein útsending” og virkar því ekki. Ég hef kvartað við webmaster@ruv.is en ekkert gengur ennþá (sunnudagskvöld). Við skulum vona að þetta sé óvart hjá þeim á RÚV!

Comments are closed.