Home > Yfirlýsingar > Sigur lýðræðis er í augsýn

Sigur lýðræðis er í augsýn

January 22nd, 2009 ritstjorn

Raddir fólksins hafa staðið fyrir friðsömum mótmælafundum á Austurvelli undanfarna mánuði. Tugþúsundir Íslendinga hafa þar tekið undir skýrar kröfur um að stjórnir Seðlabanka og Fjármálaeftirlits fari frá, stjórnarslit verði og kosningar svo fljótt sem unnt er. Það er ljóst að vilji þjóðarinnar stendur til þess að endurreisa lýðveldið með því að rita nýja stjórnarskrá og breyta pólitískum leikreglum.

Raddir fólksins hvöttu þjóðina til friðsamlegrar mótmælastöðu við Alþingi kl 13:00 sl. þriðjudag. Þessi hvatning varð kveikjan að umfangsmestu mótmælum gegn sitjandi stjórnvöldum í sögu þjóðarinnar. Því miður breyttust friðsamleg mótmæli í átök sl. nótt. Íslendingar una því ekki að þjóðin berjist innbyrðis. Landsmenn verða að standa saman allir sem einn á þessum erfiðu tímum.

Raddir fólksins biðja mótmælendur að gæta stillingar og hófsemi og halda í  þá sjálfsvirðingu sem var svo snertandi í gær þegar mótmælendur fluttu sig til vegna jarðarfarar og þögðu uns athöfninni lauk. Stöndum saman, berjum bumbur, köllum slagorð, syngjum saman – látum raddir okkar heyrast og mótmælum friðsamlega.

Sögulegur sigur lýðræðis í landinu er í augsýn. Lögreglan er ekki óvinur okkar. Beinum sjónum okkar að því að byggja upp nýtt Ísland, nýtt lýðveldi og nýja þjóð.

Categories: Yfirlýsingar Tags:
Comments are closed.