Home > Fréttatilkynningar > Mótmælastaða við Alþingishúsið

Mótmælastaða við Alþingishúsið

January 21st, 2009 ritstjorn

Í tilefni af mótmælastöðu við Alþingishúsið þriðjudaginn 20. janúar og miðvikudaginn 21. janúar vilja Raddir fólksins koma eftirfarandi á framfæri.

Raddir fólksins hafa vikum saman reynt að ná eyrum ráðamanna þjóðarinnar til að vara þá við afleiðingum sofandaháttar og aðgerðaleysis. Rætt hefur verið við ríkissaksóknara, viðskiptaráðherra, fjármálaráðherra og forsætisráðherra.

Á þessum fundum hefur boðskapur okkar verið skýr: Það er knýjandi nauðsyn að ríkisstjórnin bregðist tafarlaust við og skipi nýjar stjórnir Seðlabanka og Fjármálaeftirlits, segi af sér og boði til nýrra kosninga.

Því miður hefur ríkisstjórnin þverskallast við að fara að vilja landsmanna. Því er óhjákvæmilegt að þjóðin rísi upp og tjái ráðamönnum vilja sinn á þann kröftuga hátt sem við höfum orðið vitni að í gær og í dag.

Raddir fólksins leggja áherslu á friðsamleg mótmæli og harma að saklausir sjónarvottar hafi orðið fyrir barðinu á tilviljanakenndri valdbeitingu lögreglunnar. Á sama hátt er ljóst að hlutverk lögreglunnar er ekki öfundsvert við þessar aðstæður.

Categories: Fréttatilkynningar Tags:
  1. Jón
    January 22nd, 2009 at 01:14 | #1

    Mótmælin hafa beinst að stjórnvöldum, ræningjarnir eiga stór fyrirtæki í fullum rekstri með vafasömu fjármagni. Má ekki standa fyrir utan Bónusbúð til dæmis, Straum Burðaráss eða höfuðstöðvar Samskipa með nægar birgðir af skyri og eldivið til að ylja sér við mótmæli framan við þessi fyrirtæki? Ekki viljum við hafa þessa aðila í sínum stöðum á “Nýja Íslandi”. Þetta fólk þarf því miður að yfirgefa rústir þessa lands, annars verður aldrei friður.

Comments are closed.