Home > Kröfur > Fjármálaráðherra krafinn um afsögn

Fjármálaráðherra krafinn um afsögn

January 2nd, 2009 ritstjorn

Í dag, föstudaginn 2. janúar, kröfðu talsmenn Radda fólksins fjármálaráðherra um tafarlausa afsögn.

Undanfarna þrjá mánuði hafa Raddir fólksins staðið fyrir fjölmennum útifundum á Austurvelli. Tugþúsundir Íslendinga hafa séð sig knúna til að snúa bökum saman og mótmæla kröftuglega því ástandi sem ríkisstjórn Íslands hefur kallað yfir landsmenn. Krafa okkar er skýr: Burt með ríkisstjórnina, burt með stjórnir Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins og kosningar svo fljótt sem unnt er.

Ríkisstjórnin hefur kosið að hunsa kröfur landsmanna um tafarlausa uppstokkun og breytingar á stjórnkerfi landsins. Ráðherrar sitja sem fastast og vísa ábendingum um pólitíska ábyrgð frá sér. Formaður bankastjórnar Seðlabankans hefur í hótunum við forsætisráðherra og forstjóri Fjármálaeftirlitsins svarar ekki ítrekuðum fyrirspurnum fréttamanna.

Ljóst er að aðalleikarar á hinu pólitíska sviði í þeim fjárhagslegu hamförum sem skekið hafa Ísland eru þrír: Forsætisráðherra, fjármálaráðherra og formaður bankastjórnar Seðlabankans. Deila má um hvort einbeittur brotavilji þeirra eða stórfelld vankunnátta hafi ráðið för, en um afleiðingarnar verður ekki deilt.

Því verður ekki hjá því komist að saka þessa þjóna almennings um stórfelld brot í starfi sem heyra undir X. kafla almennra hegningarlaga. Með setningu Neyðarlaga 6. október sl. hratt þetta þríeyki af stað atburðarrás sem reyndist bein aðför að fullveldi Íslands og hagsmunum landsmanna.

Það er í ljósi þessarar grafalvarlegu stöðu sem Raddir fólksins fara hér með fram á tafarlausa afsögn fjármálaráðherra. Annmarkar á undirbúningi, ákvörðun og málsmeðferð allri eru með þeim hætti að óhjákvæmilegt er að ráðherra axli pólitíska ábyrgð. Uppsafnað vanhæfi hans er með þeim eindæmum að ekki verður lengur við unað.

Categories: Kröfur Tags:
Comments are closed.