Home > Yfirlýsingar > Yfirlýsing kl. 16:00 8. janúar 2009

Yfirlýsing kl. 16:00 8. janúar 2009

January 7th, 2009 ritstjorn

Í þrjá mánuði hafa Íslendingar mátt þola óvenju óvægnar árásir Breta á íslenskt hagkerfi. Með beitingu hryðuverkalaga 8. okt. sl. á vopnlausa vinaþjóð lýstu bresk stjórnvöld í rauninni stríði á hendur Íslendingum.

Afleiðingarnar eru ógnvekjandi. Með fullri sanngirni má halda því fram að greiðslur landsmanna vegna Icesave málsins muni nema andvirði a.m.k. 40 framhaldsskóla á ári – næsta áratuginn. Allir raunsæir menn sjá að það er með öllu óraunhæft að leggja slíkar drápsklyfjar á fámenna þjóð.

Það er í þessu ljósi sem Raddir fólksins fordæma máttlítil og ómarkviss viðbrögð ríkisstjórnar Íslands við leifturárás Breta á landsmenn. Nýta á einn kost af þremur í lögsókn á hendur breskum stjórnvöldum og ádráttur gefinn um mögulega kæru til Mannréttindadómstólsins.

Þessi niðurstaða ríkisstjórnar Íslands er með öllu óásættanleg fyrir landsmenn. Það er á tímum sem þessum sem þjóðin kallar eftir markvissri og framsýnni forystu. Við þurfum eldhuga sem þora, skilja og vilja vinna þjóðinni allt það gagn sem verða má, í stað freðinna fortíðarþursa sem stórskaða þjóðina.

Categories: Yfirlýsingar Tags:
Comments are closed.