Archive

Archive for January, 2009

#15 – Laugardagur 17. janúar

January 16th, 2009 ritstjorn Comments off

Samtökin Raddir fólksins standa fyrir mótmælafundi á Austurvelli laugardaginn 17. janúar nk. kl 15:00. Þetta er fimmtánda vika virkra mótmæla þjóðarinnar gegn siðleysi banka, auðmanna og stjórnvalda.

Íslendingar búa við stjórnarkreppu í miðju ölduróti ofurskulda og ráðakeysi íslenskra stjórnvalda er löngu farið að vekja athygli og undrun umheimsins.

Yfirskrift fundarins er sem fyrr Breiðfylking gegn ástandinu og kröfurnar skýrar: Burt með ríkisstjórnina, burt með stjórnir Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins og kosningar svo fljótt sem unnt er.

Samtökin Raddir fólksins leggja áherslu á friðsamleg fjöldamótmæli um land allt. Máttur fjöldans mun færa þjóðinni langþráðar stjórnarbætur og nýtt Ísland.

Ræðumenn :

 • Svanfríður Anna Lárusdóttir – Atvinnulaus
 • Gylfi Magnússon – Dósent

Fundarstjóri :

 • Hörður Torfason
Categories: Útifundir Tags:

#14 – Laugardagur 10. janúar 2009

January 10th, 2009 ritstjorn Comments off

Fjórtándi mótmælafundur Radda Fólksins á Austurvelli, laugardaginn 10. janúar 2009

Ræðumenn :

 • Þorvaldur Þorvaldssson, trésmiður
 • Lilja Mósesdóttir, hagfræðingur
 • Lárus Páll Birgisson, sjúkraliði

Fundarstjórn :

 • Hörður Torfason
Categories: Útifundir Tags:

Fjórtándi mótmælafundurinn

January 9th, 2009 ritstjorn Comments off

Fjórtándi mótmælafundur Radda fólksins verður haldinn á Austurvelli laugardaginn 10. janúar nk. kl. 15:00.

Yfirskrift fundarins er sem fyrr Breiðfylking gegn ástandinu og kröfurnar skýrar:

 • Burt með ríkisstjórnina
 • Burt með stjórnir Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins
 • Kosningar svo fljótt sem unnt er

Samtökin Raddir fólksins hafa einbeitt sér að því að kalla til fólk úr öllum stéttum þjóðfélagsins til að bregða ljósi á það skelfilega stjórnmála- og efnahagsástand sem ríkir í landinu.

Á undanförnum vikum og mánuðum hafa liðlega 40 manns flutt ræður og ávörp á Austurvelli og öflugur hópur manna hefur starfað við undirbúning og umsjón með fundunum. Öllum þessum röddum fólksins ber að þakka mikið og óeigingjarnt starf.

Að þessu sinni flytja ávörp og ræður:

 • Þorvaldur Þorvaldssson, trésmiður
 • Lilja Mósesdóttir, hagfræðingur
 • Lárus Páll Birgisson, sjúkraliði

Fundarstjóri er Hörður Torfason

Categories: Tilkynningar Tags:

Yfirlýsing kl. 16:00 8. janúar 2009

January 7th, 2009 ritstjorn Comments off

Í þrjá mánuði hafa Íslendingar mátt þola óvenju óvægnar árásir Breta á íslenskt hagkerfi. Með beitingu hryðuverkalaga 8. okt. sl. á vopnlausa vinaþjóð lýstu bresk stjórnvöld í rauninni stríði á hendur Íslendingum.

Afleiðingarnar eru ógnvekjandi. Með fullri sanngirni má halda því fram að greiðslur landsmanna vegna Icesave málsins muni nema andvirði a.m.k. 40 framhaldsskóla á ári – næsta áratuginn. Allir raunsæir menn sjá að það er með öllu óraunhæft að leggja slíkar drápsklyfjar á fámenna þjóð.

Það er í þessu ljósi sem Raddir fólksins fordæma máttlítil og ómarkviss viðbrögð ríkisstjórnar Íslands við leifturárás Breta á landsmenn. Nýta á einn kost af þremur í lögsókn á hendur breskum stjórnvöldum og ádráttur gefinn um mögulega kæru til Mannréttindadómstólsins.

Þessi niðurstaða ríkisstjórnar Íslands er með öllu óásættanleg fyrir landsmenn. Það er á tímum sem þessum sem þjóðin kallar eftir markvissri og framsýnni forystu. Við þurfum eldhuga sem þora, skilja og vilja vinna þjóðinni allt það gagn sem verða má, í stað freðinna fortíðarþursa sem stórskaða þjóðina.

Categories: Yfirlýsingar Tags:

Forsætisráðherra krafinn svara í IceSave málinu

January 5th, 2009 ritstjorn Comments off

Í gær, sunnudaginn 4. janúar, vöktu samtökin In Defence of Iceland (www.indefence.is) rækilega athygli í fjölmiðlum á þeirri alvarlegu stöðu sem blasir við Íslendingum í Icesave málinu. Mánuðum saman hafa samtökin barist hetjulegri baráttu innan íslenska stjórnkerfisins fyrir því að stjórnvöld nýti sér rétt Íslendinga til að höfða mál gegn bresku stjórninni vegna setningar hryðjuverkalaga 8. október 2008 og yfirtökunni á Kaupþing Singer & Friedlander. Legið hefur fyrir að réttur til að áfrýja yfirtöku Kaupþings Singer & Friedlander rennur út miðvikudaginn 7. janúar nk.

Þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir hafa íslensk stjórnvöld ekki viljað svara því skýrt hvort þau hyggjast nýta þá sjálfsögðu og eðlilegu leið að stefna Bretum og krefja þá um bætur fyrir það gríðarlega tjón sem setning hryðjuverkalaganna og yfirtaka Kaupþings Singer & Friedlander olli íslensku þjóðinni. Fullyrt hefur verið að rekja megi fall Landsbankans og Kaupþings beint til þessa gerræðis Breta.

Ljóst er að með setningu neyðarlaga í skjóli nætur á Alþingi 7. október sl. varð algjör trúnaðarbrestur milli íslenskra og breskra stjórnvalda. Bretar fullyrða að stjórnvöld þeirra hafi ekki fengið viðunandi skýringar íslenskra stjórnvalda á stöðu breskra innistæðueigenda varðandi Icesave-reikninga Landsbankans, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Athyglisvert er að þeir telja að barnalegar þrætur hafi verið uppi milli breskra og íslenskra ráðherra og að málið hafi í alla staði verið ófaglega unnið.

Því verður ekki trúað að ríkisstjórn Íslands ætli að láta málskotsréttinn renna sér úr greipum án þess að grípa til varna í málinu. Raddir fólksins krefjast þess hér með að forsætisráðherra svari undanbragðalaust hvort stjórnvöld ætli að láta bresku stjórnina kúga íslenska borgara til að taka á sig mörghundruðmilljarða greiðslur vegna uppgjörs á meintum skuldum Íslendinga í Icesave málinu. Ef vilji íslenskra stjórnvalda stendur raunverulega til þess að láta málið fjara út verður það ekki skilið öðru vísi en svo að alvarlegir meinbugir í íslenskri stjórnsýslu þoli ekki dómsmeðferð.

Categories: Fréttir Tags:

#13 – Laugardagur 3. janúar

January 3rd, 2009 ritstjorn Comments off

Fundarstjórn :

 • Hörður Torfason

Ræðumenn :

 • Halldóra Guðrún Ísleifsdóttir, kennari og grafiskur hönnuður
 • Einar Már Guðmundsson, rithöfundur
 • Dagný Dimmblá, 8 ára skólastelpa
Categories: Útifundir Tags:

Fjármálaráðherra krafinn um afsögn

January 2nd, 2009 ritstjorn Comments off

Í dag, föstudaginn 2. janúar, kröfðu talsmenn Radda fólksins fjármálaráðherra um tafarlausa afsögn.

Undanfarna þrjá mánuði hafa Raddir fólksins staðið fyrir fjölmennum útifundum á Austurvelli. Tugþúsundir Íslendinga hafa séð sig knúna til að snúa bökum saman og mótmæla kröftuglega því ástandi sem ríkisstjórn Íslands hefur kallað yfir landsmenn. Krafa okkar er skýr: Burt með ríkisstjórnina, burt með stjórnir Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins og kosningar svo fljótt sem unnt er.

Ríkisstjórnin hefur kosið að hunsa kröfur landsmanna um tafarlausa uppstokkun og breytingar á stjórnkerfi landsins. Ráðherrar sitja sem fastast og vísa ábendingum um pólitíska ábyrgð frá sér. Formaður bankastjórnar Seðlabankans hefur í hótunum við forsætisráðherra og forstjóri Fjármálaeftirlitsins svarar ekki ítrekuðum fyrirspurnum fréttamanna.

Ljóst er að aðalleikarar á hinu pólitíska sviði í þeim fjárhagslegu hamförum sem skekið hafa Ísland eru þrír: Forsætisráðherra, fjármálaráðherra og formaður bankastjórnar Seðlabankans. Deila má um hvort einbeittur brotavilji þeirra eða stórfelld vankunnátta hafi ráðið för, en um afleiðingarnar verður ekki deilt.

Því verður ekki hjá því komist að saka þessa þjóna almennings um stórfelld brot í starfi sem heyra undir X. kafla almennra hegningarlaga. Með setningu Neyðarlaga 6. október sl. hratt þetta þríeyki af stað atburðarrás sem reyndist bein aðför að fullveldi Íslands og hagsmunum landsmanna.

Það er í ljósi þessarar grafalvarlegu stöðu sem Raddir fólksins fara hér með fram á tafarlausa afsögn fjármálaráðherra. Annmarkar á undirbúningi, ákvörðun og málsmeðferð allri eru með þeim hætti að óhjákvæmilegt er að ráðherra axli pólitíska ábyrgð. Uppsafnað vanhæfi hans er með þeim eindæmum að ekki verður lengur við unað.

Categories: Kröfur Tags: