Archive

Archive for the ‘Óflokkað efni’ Category

Ræða Halldóru Kristínar Thoroddsen 26. janúar 2013

February 12th, 2013 admin Comments off

Kæru Samborgarar!
Hvað dregur okkur hingað á Austurvöll? Hví stöndum við hér? Hvert er erindi okkar? Jú, Því er auðsvarað, Þetta er baráttufundur og baráttan snýst fyrst og fremst um auðlindir þjóðarinnar. Það er ögurstund í íslensku samfélagi. Á ögurstundum getur brugðið til beggja vona.

Það er kominn tími til að við íbúar þessarar jarðar hefjum siðlega umgengni við náttúruna. Kominn tími til að við hættum að líta á hana sem ótæmandi uppsprettu arðs fyrir fáa útvalda. Arðurinn af náttúruauðlindum jarðar safnast nú á svo fáar hendur, að svo er komið að árstekjur eitt hundrað manna hér á jörðunni er fjórum sinnum hærri upphæð en þyrfti til að útrýma fátækt í heiminum.
… Við eigum ekki náttúruna, við erum náttúran, vöxum upp af jörðunni eins og laufin á trjánum. Með takmarkaðan nýtingarrétt á gjöfum hennar, okkur öllum til handa. Siðleg umgengni við náttúruna er orðin spurning um framtíð tegundarinnar.

En verum ekki svo barnaleg að ætla að hagsmunaaðilar leyfi okkur að kjósa burt hagsmuni sína, að þeir skili sérhagsmunum sínum baráttulaust.

Hverju breytir svo auðlindaákvæði nýja stjórnarskrárfrumvarpsins? Hverju breytir það að skilgreina annars konar eignarrétt en séreignarrétt í stjórnarskrá Íslands? Er ekki ákvæði í gildandi stjórnarskrá sem kveður á um að auðlindirnar séu sameign þjóðarinnar? Jú, en ákvæðið er of almennt og ekki lögtækt. Það hefur í mesta lagi nýst sem fagurgali í hátíðarræðum. Svokallaðir kvótaeigendur hafa með leyfi yfirvalda umgengist auðlindina sem séreign og notað óveiddan fiskinn í sjónum til veðsetningar. Árið 2009 var sjávarauðlindin veðsett upp á 550 milljarða og helmingur lánanna sem fengust út á veðin fóru í fjárfestingar ótengdar sjávarútvegi, svo sem til gjaldeyris- og afleiðuviðskipta. Það eru kunnugleg nöfnin sem nú hafa sótt um tilraunaboranir á Drekasvæðinu, en því fylgir jafnframt leyfi til að vinna olíu og gas þegar það finnst. Er kannski ætlunin að gefa þeim olíukvóta?

Auðlindarákvæði hins nýja stjórnarskrárfrumvarps hljóðar svo í mjög styttri útgáfu: ,,Auðlindir í náttúru Íslands sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja”.

Nefnd lagatækna viðraði meðvirkni sína með sérhagsmunaöflunum í fyrradag og ályktaði (að því er virtist í fullri alvöru) að með því að setja þetta ákvæði inn í stjórnaskrá væri hægt að nota það til að meina fólki þess að njóta sólaljóss og andrúmslofts. Come on!

Það var fyrir fjórum árum sem þjóðin stóð hér á Austurvelli hamslaus af reiði, þegar skynvillan hrundi á einum degi, stímdi á veruleikann með brauki og bramli og svikavefurinn varð lýðnum ljós. Hvílík óheilindi, og allt í boði yfirvalda. Þúsund manna þjóðfundur setti fram kröfur um gagnsæi, ábyrgð, réttlæti, valddreifingu sjálfbæra þróun og að auðlindir skyldu verða óframseljanleg eign þjóðarinnar.

Í hinu nýja stjórnarskrárfrumvarpi er komið til móts við allar þessar kröfur.

Við vitum fullvel að stjórnarskrá tryggir ein og sér ekki góða stjórnarhætti. Hins vegar er hún vegvísir, hún skilgreinir grunngildi þjóðar og góð stjórnarskrá á að tryggja eftirlit með valdinu svo að það haldi þau gildi í heiðri. Það eftirlit þarf að vera innbyggt í stjórnkerfið og sístarfandi til þess að rétta kúrsinn.
Þættir valdsins þurfa bæði að vera aðskildir og skarast svo að þeir hafi aðhald og eftirlit hver með öðrum, jafnharðan. Það er þetta verklag sem mér finnst að stjórnlagaráði hafi tekist að skrifa inn í hið nýja stjórnarskrárfrumvarp. Stjórnarskrárfrumvarpið tekur gildandi stjórnarskrá langt fram og kveður á um stórbætta stjórnsýslu, aukið gagnsæi í kerfinu, meira lýðræði. Inniheldur skýrari og réttlátari mannréttindakafla og kröfu um að jafna loks vægi atkvæða og um sjálfbærni og náttúruvernd. Það er sjálfsagt að taka til skoðunar alla málefnanlega rýni sem gæti orðið til gagns, nú á þessum síðustu metrum vinnunnar við nýja stjórnarskrá svo framarlega sem rýnin er sett fram til að bæta frumvarpið, en ekki í þeim annarlega tilgangi að koma í veg fyrir að auðlindirnar verði raunveruleg þjóðareign.

Það er vegna auðlindaákvæðisins í nýja stjórnarskrárfrumvarpinu sem við stöndum hér, fyrir því þarf að berjast. Nú er ályktað út um allan bæ, því að vél sérhagsmunaaflanna er löngu kominn í gang og margir leggjast á árar. Nytsamir sakleysingjar sem hafa drukkið með móðurmjólkinni meðvirkni með valdinu, embættismenn kerfisins, eða bara grímulausir hagsmunaaðilar með herskáum meðreiðarsveinum. Það fyrirfinnast líka því miður fræðimenn, handhafar þekkingarinnar, sem tína til smáatriði og blása þau út til þess eins að eyðileggja vinnuna. Þeir vilja núna láta taka sig alvarlega… þeir hinir sömu sem æmtu hvorki né skræmtu þegar mest á reið fyrir þjóðina. Hvar voru þeir þá? Jú, í klappliði valdsins… Hvar annars staðar?

Við brýnum Alþingi til verka, því það þarf að samþykkja stjórnarskrárfrumvarpið á þessu þingi. Takk fyrir.

Categories: Óflokkað efni Tags:

Örn Bárður – ræða 26. janúar 2013

February 12th, 2013 admin Comments off

Tætarar og LÍÚvitni
Ræða flutt á Austurvelli 26. janúar 2013 á fundi Radda fólksins

Góðir áheyrendur, kæru lýðræðisvinir.
Borgin var klædd hvítum möttli í morgun, hrein og tær eins og vagga nýfædds barns, táknmynd þess að til er eitthvað óspillt og tært. En svo tekur skuggalegur veruleikinn við. Í þessu þjóðfélagi eiga ástök sér stað og þar fer mikinn, fólk sem starfar í flokkum sem ég kalla, Tætaraflokka.
Ég man þegar ég fór með sparifé mitt í banka í fyrsta sinn og stofnaði bankabók. Ég man líka vel þegar ég áttaði mig á því að bankarnir voru eins og óseðjandi skrímsli sem átu peninga. Í bönkunum voru og eru tætarar sem eyða sparifé landsmanna. Þetta var á 6. áratugi liðinnar aldar. Rúmum áratug síðar stóð ég í húsbyggingu og þá fengust ekki bankalán til framkvæmda. Þá gekk maður bara fyrir afli eigin handa og sjálfsaflafé. Sumir höfðu reyndar aðgang að bankaskrímslinu og fengu ódýrt lánsfé sem aldrei þurfti að borga því það var sjálfvirk lánaeyðing í gangi fyrir útvalda, gengisfellingar, sem stjórnvöld beittu til að færa fjármuni á milli þjóðfélagshópa. Fjármunir runnu til útflutningsatvinnuveganna sem að stofni til voru útgerðirnar. Nú eru komnar til starfa svonefndar skilanefndir sem ættu kannski að kallast „lánaeyðing bankanna“ þar sem starfar fólk er fær skrilljónir í laun fyrir að ýta á trakkann á tætaranum. Innan stjórnmálastéttarinnar er fólk sem hefur fengið lausn sinna mála með aðstoð fólks á takkanum sem tætir í sig skuldabréf og kröfur. Og kúlulánaþingmenn brosa breitt og halda bara áfram að ræða skuldavanda heimilanna ásamt hinum og lítið gengur í þeim efnum. Absúrd veruleiki.
Við höfum aldrei átt þetta land frá því við urðum sjálfstæð þjóð, þjóðin hefur aldrei átt þetta land.
Ég man gömlu útgerðarmennina á Vestfjörðum þegar ég var drengur sem voru hjartað í sinni byggð, stóðu og féllu með fólkinu. En svo man ég þegar ég fullorðinn vaknaði einn daginn við það sem prestur í útgerðarbæ hér syðra að nokkrir bæjarbúar voru allt í einu orðnir milljarðamæringar. Þeir höfðu farið að sofa daginn áður sem ósköp venjulegir útgerðarmenn en vöknuðu við það að auðurinn velti þeim nánast af koddanum. Það var engu líkara en opnast hefði gjósandi peningahver undir rúminu. Og sumir þeirra hættu í útgerð, seldu og fóru að braska með féð. Það leit svo miklu betur út í byrjun að þurfa ekki að vera andvaka yfir bátunum, fiskvinnslunni, rekstrinum, fiskverkunarfólkinu, körlunum og kellingunum að ógleymdum útlendingunum, veðrinu og öllu þessu basli sem tilheyrir íslenskri útgerð við veðurbarða strönd. Nú var hægt að halla sér aftur í hægindastól og horfa á peninganan vinna fyrir sig, „græða á daginn og grilla á kvöldin“. En andvökunæturnar hurfu ekki því nýjar áhyggjur tóku við að gömlum. Nú sváfu menn ekki vegna áhyggna yfir því hvort fjármunirir væru í réttum sjóðum eða félögum. Ég fann til með þessu áhyggjufulla fólki enda allt gott og vel meinandi fólk sem hafði bara lent í þeirri ógæfu að nánast drukkna í peningum. Í fyrra græddu þau áttatíuogeittþúsundmilljónir og barma sér yfir að greiða gjald fyrir aðgang að auðlindinni okkar. Og enn er þetta góða fólk að störfum í þjóðfélaginu, fjölskyldurnar fáu sem eiga landið. LÍÚflingar Íslands.
Og hverjir leyfðu veðsetningu kvótans og gerðu þar með atlögu að eignarhaldi þjóðarinnar á sjávarauðlindinni?
Árið 1990 mælti Halldór Ásgrímsson, þáv. sjávarútvegsráðherra fyrir frumvarpi sem breytti Íslandi á afdrifaríkan hátt. Forsætisráðherra þjóðarinnar þá var – og nú vitna ég í Magnús Þór Hafsteinsson – „Steingrímur Hermannsson. Hann var jafnframt formaður Framsóknarflokksins sem hafði myndað ríkisstjórn með Alþýðubandalagi, Alþýðuflokki og Borgaraflokki.
Framsóknarflokkur og forverar Samfylkingar og Vinstri grænna samþykktu kvótalögin árið 1990.
Saman stóðu þessi fjórir flokkar að því voðaverki að færa kvótakerfið með frjálsu framsali í lög. Nokkrir þingmenn Alþýðubandalags og Alþýðuflokks klufu sig þó frá, stóðu í lappirnar og sögðu NEI.
Þingflokkar Sjálfstæðisflokks og Kvennalista sem voru í stjórnarsandstöðu sögðu NEI við frumvarpinu (sem er háðuleg niðurstaða í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur allar götur síðan staðið vörð um kerfið og fest það í sessi eftir fremsta megni).“
(Magnús Þór Hafsteinsson:

http://magnusthor.blog.is/blog/magnusthor/entry/1036734/)

Kæru lýðræðisvinir.
Við höfum aldrei átt þetta land frá því við urðum sjálfstæð þjóð, þjóðin hefur aldrei átt þetta land. Því hefur alltaf verið stjórnað af fámennum hagsmunahópum þar sem fáir eiga flest en fjöldinn fátt.
Krafa fólksins var og er ný stjórnarskrá. Nú þarf þjóðin að standa lýðræðisvaktina. Alþingi skynjaði vitjunartíma sinn og hrökk í dúndrandi gír frjórrar sköpunar og fól þjóðinni að semja nýja stjórnarskrá. Svo er hugrökku og skapandi fólki að þakka sem situr á þingi og er enn að berjast fyrir þessu góða máli. Það er fagnaðarefni. Gleymum því ekki. Á Alþingi átti sér stað algjört kraftaverk þegar þetta ferli hófs fyrir um 4 árum því Alþingi hafði sýnt sig um árabil verandi ófært um að endurskoða stjórnarskrána, búið að sitja í sama tossabekknum í þeim efnum með 4,9 eða minna í einkunn á hverju vorprófi í tæp sjötíu ár. Það eitt vakti okkur von að slíkt undur skyldi hafa gerst að þjóðinni var falið þetta mikla verkefni.
Það er gaman að búa á Íslandi, landinu sem af og til vekur athygli fyrir flott frumkvæði: við eigum fyrsta þjóðkjörna forseta sögunnar, fyrsta þjóðkjörna kvenforsetann, en við vorum líka fyrst til að fara á hausinn, fyrst til að byrja búsáhaldabyltingu – í það minnsta á þessari öld – fyrst til að fela þjóðinni að semja stjórnarskrá, en á góðri leið með að verða fyrst til að eyðileggja slíkt glæsiferli og gargandi snilld. En ég trúi því samt ekki.
Við erum makalaus þjóð. Við sem hér stöndum lýðræðisvaktina viljum ekki gefast upp fyrir þessum fáránleika, fyrir þessu absúrd leikriti sem er í gangi. Við erum hér undir vegg Alþingis sem er harði diskurinn í gagnverki þjóðfélagsins. Ég treysti því að enn sé til gott fólk í þessu svarta húsi við Austurvöll.
En vandinn er sá að stýrikerfið er úrelt. Vinnubrögðin óskilvirk. Afköstin lítil vegna óeiningar og upplausnar. Nú er frumvarp að nýrri stjórnarskrá til umræðu, flott frumvarp og framsækið, hógvært en samt hugumstórt.
Fróðir menn hafa bent á að flestum baráttumálum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar s.l. 7 áratugi eru gerð skil í nýja frumvarpinu. En þeir eru samt á móti. Hvað er þá að? Hvatir þeirra í andófinu eru af einhverjum öðrum toga en málefnalegum. Eru þeir kannski flestir LÍÚvitni inn við beinið?
Úrtölufólk hefur nú vaknað sem af dvala til að tala, skrifa og blogga. Það þarf víst að rannsaka þetta betur, gefa sér meiri tíma, fá eilítunni það í hendur og fræðimönnum sem vilja komast á skilanefndarlaun til að tæta niður skjalið góða. Örfáir fræðimenn, sem í hógværð sinni leyfðu að þeir væru kallaðir Fræðasamfélagið, með stórum staf og ákveðnum greini, hafa farið mikinn undir merki Háskóla Íslands. En vissuð þið að málþing Fræðasamfélagsins, með stórum staf og ákveðnum greini, var undirbúið og skipulagt af fv. þingmanni stærsta hrunflokksins? Það þarf ekki nema að skipta um einn staf í orðinu háskóli til að lýsa þessum vinnubrögðum, taka essið út og setja eð í staðinn. Prófaðu hljóminn í því orði.
Stjórnarskráin er tilbúin. Hún er flott plagg sem reyndar þarf að álagsprófa í náinni framtíð. Hún er eins og nýfætt barn sem þarf að fá að sanna sig. Hún er ekki fullkomin en hún er flott. Það segja innlendir fræðimenn og erlendir sérfræðingar sem gefa henni hæstu einkunn. Hún fellur ekki með 4,9 en þingmennirnir gætu fallið með þá einkunn -eða enn lægri – vegna þess að þeir skilja ekki sumir hvað er í húfi, sjá ekki samhengið vegna þess að það er kerfisvilla í hópnum, vírus í forritinu.
Þessi svarti harði diskur sem við augum okkar blasir þarfnast nýs stýrikerfis. Það er kominn tími til að uppfæra forritin, skipta út mörgum sem þar sitja nú, en líka að skipta um stýrikerfið sjálft, stjórnarskrána, sem er grundvöllur allra landsins laga. Nýja stjórnarskráin er sú fyrsta sem samin er sem sáttmáli íslensku þjóðarinnar við sögu sína, samtíð og framtíð. Fyrsti sáttmáli frjálsrar þjóðar í þessu landi. Við viljum ekki að hún fari í tætarann. Við skulum standa lýðræðisvaktina þar til sigur vinnst.
Stjórnarskráin er eins og himnasending sem fengið hefur rúm í þessum helli við Austurvöll þar sem vitringarnir streyma nú að henni með sínar gjafir og þær eru ólíkar gjöfum vitringanna þriggja forðum því nú færa þeir fram fátt annað en bull, ergelsi og firru.
Þau verða að teljast skyni skroppin sem sitja nú á þingi og ætla sér að biðja um stuðning til setu næstu 4 ár og byrja kosningabaráttuna með því að ulla framan í þjóðina sem er uppspretta valdsins.
Tætaraflokkarnir ætla að bjóða fram í vor. Þeir þekkja hvernig eyðileggja á skjal sem ógna sérhyggjunni og þeim sjálfum, gæslumönnum hagsmuna hinna fáu á kostnað hinna mörgu. Þeir reynast vera nytsamir erindrekar, LÍÚvitni sérhyggjunnar.
En við skulum þrátt fyrir allt gefa þeim tækifæri og vona að þeim auðnist að ganga í sig og snúa til baka eins og týndi sonurinn í dæmisögunni góðu gerði, sem sneri aftur til föður síns, sem að breyttu breytanda er þjóðin sjálf og vilji hennar.
Kæru lýðræðisvinir. Við höfum aldrei átt þetta land frá því við urðum sjálfstæð þjóð. Því hefur alltaf verið stjórnað af fámennum hagsmunahópum þar sem fáir eiga flest en fjöldinn fátt.
Stöndum gegn tætingslegum málflutningi tætaraflokkanna og sendum þeim skýr skilaboð þjóðar sem vill þróa samfélagið til betri vegar í þeim anda sem segir í aðfaraorðum nýrrar stjórnarskrár:
Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. [. . . ] Við viljum efla friðsæld, öryggi, heill og hamingju á meðal okkar og komandi kynslóða.
Þetta er fögur sýn.
Þetta er andinn í nýrri stjórnarskrá.
Við sem hér köllum eftir nýju Íslandi óttumst ekkert. Við eigum landið og miðin og við viljum að Alþingi samþykki frumvarp Stjórnlagaráðs, e.t.v. með smávægilegum, lagatæknilegum lagfæringum, frumvarp sem þjóðin hefur tekið upp á sína arma og óskað eftir að verði kjölurinn í nýjum grundvallarlögum, stjórnarskrá Íslands. „Í kili skal kjörviður“ og þetta frumvarp uppfyllir þá kröfu.
Kæru lýðræðisvinir.
Stöndum lýðræðisvaktina!
Látum ekki hugfallast!
Rættlætið og sannleikurinn munu sigra!

Categories: Óflokkað efni Tags:

Ræða Ástrósar Gunnlaugsdóttur 9. febrúar 2013

February 12th, 2013 admin Comments off

Ágætu fundargestir.

Ég er stolt af því að vera Íslendingur. Við gefumst ekki upp þótt á móti blási. Við erum friðelskandi, kærleiksrík og umburðarlynd. Við erum börn þjóðar sem á sér framtíð sem hægt er að móta. Tækifærin eru í okkar höndum. Farvegurinn var ruddur af þeim sem á undan gengu, frá Þingvöllum barst hljómurinn um sjálfstæða þjóð. Við vildum vera sjálfstæð, ein úti í ballarhafi á litlu skeri. Skeri sem er eitt fallegasta land veraldar.

Nú höfum við, íslenska þjóðin, tækifæri til að hafa áhrif á eigin framtíð og uppbyggingu samfélags okkar. Heimurinn hefur breyst mikið frá árinu 1944, þegar núgildandi stjórnarskrá var samþykkt. Sovétríkin eru hrunin, barist er fyrir jafnrétti kynjanna og hagsmunum ólíkra þjóðfélagshópa. Ég tel því afar mikilvægt að við breytum, einmitt núna, innviðum samfélagsins í takt við breytt ytra umhverfi þar sem sjónarmið sem flestra eru höfð að leiðarljósi. Endurbætt stjórnarskrá er möguleiki okkar til að móta það samfélag sem við viljum búa í og ala börn okkar upp í. Samfélag sem byggir á réttlæti og sanngirni, allt frá kjördæmaskipan og atkvæðavægi í kosningum til dómsuppkvaðninga.

Ég er hluti af ungu kynslóðinni og við sem tilheyrum henni verðum að geta horft bjartsýn til framtíðar. Í kjölfar þess hruns sem varð hér á landi árið 2008 er nauðsynlegt að endurskoða þær undirstöður sem Ísland hefur byggt á hingað til. Við vöknuðum upp við vondan draum, núgildandi stjórnarskrá gat ekki varið okkur fyrir því hruni sem hér varð. Hún gat ekki komið í veg fyrir valdníðslu, eftirlitsleysi og ábyrgðarleysi stjórnmálamanna. Við þurfum að koma í veg fyrir að komandi kynslóðir upplifi slíkt. Að mínu mati er ábyrgðin og tækifærið núna ekki síst í höndum þeirra kynslóða sem byggja munu Ísland í framtíðinni. Við unga fólkið verðum því að hlýða kallinu og sjá til þess að hér verði samþykkt betri stjórnarskrá en sú sem nú er við lýði.

Á haustmánuðum árið 2010 buðust 523 einstaklingar til að ganga úr vinnu, af heimili eða skóla, í almannaþágu til að vinna þarft verk. 1000 manns höfðu þar á undan fórnað tíma til að setjast á rökstóla um sama málefni. Þvílík þjóð. Við höfum sýnt að hægt er að rífa sig upp úr hvaða öldudal sem er og sigrast á erfiðleikum með einfaldri samstöðu og fórnfýsi.

Ábyrgðin er okkar að gefast ekki upp þótt á móti blási. Mikilsvirtur
 kennari
 minn
 í
 BA
 námi
 mínu
 í
 stjórnmálafræði
 við
 Háskóla
 Íslands,
 Svanur
 Kristjánsson,
 sagði
 reglulega
 við
 okkur
 nemendurna
 að
 mikilvægt
 væri
 að
 okkur
 þætti
 vænt
 um
 lýðræðið.
 Hann
 talaði
 í
 því
 samhengi
 um
 hinn
 lýðræðislega
 einstakling,
 sem
 bæði
 þætti
 vænt
 um
 lýðræðið
 og
 stæði
 vörð
 um
 það.
 Í
 því
 samhengi
 væri
 nauðsynlegt
 að
 ala
 upp
 í
 fólki
 virðingu
 fyrir
 lýðræðinu
. Lýðræði
 hvílir
 því
 ekki
 aðeins
 á
 einstaka greinum í stjórnarskrá,
heldur 
verður 
það
 að
 búa 
í 
sál 
hvers 
og 
eins.
 Þessi
 orð
 hafa
 setið
 í
 mér
 og
 þykir
 mér
 sem
 þau
 eigi
 ágætlega
 við
 á
 þeim
 tímamótum
 sem
 við,
 íslenska
 þjóðin,
 stöndum
 í
 dag.
 Við
 verðum
 að
 hafa
 trú
 á
 lýðræðinu og
 okkur
 verður
 að
 þykja
 vænt
 um
 það. Lýðræðið
 verður
 ekki
 öflugt,
 ráðandi
 stjórnarform
 nema
 með
 virkri
 þátttöku
 þjóðarinnar.


Því
 langar
 mig
 að
 hvetja
 okkur
 öll
 til
 að
 taka
 þátt
 í
 umræðum
 um
 nýja stjórnarskrá 
eins
 og 
kostur 
er.
 Án 
okkar
áhuga
og okkar baráttuanda mun
 lítið 
breytast 
til 
frambúðar.
Ég óska þess að ársgamall sonur minn muni alast upp í þjóðfélagi þar sem öllum eru tryggð réttindi í stjórnarskrá, þar sem enginn getur í krafti valds sins troðið á öðrum, þar sem auðlindir náttúrunnar teljast eign þjóðarinnar og í þjóðfélagi þar sem samtakamátturinn ríkir. Það
 að
 á sínum tíma buðust rúmlega 500
 einstaklingar
 til að semja frumvarp að nýrri stjórnarskrá
 er
 að
 mínu
 mati
 merki
 um
 nauðsyn
 þess
 að
 breytingar
 verði
 á
 íslensku
 samfélagi.
 


Látum ekki skotgrafir stjórnmálanna veikja okkur í baráttunni fyrir betri framtíð. Sýnum áfram að við erum einstök þjóð, við látum ekki deigan síga. Meirihluti þjóðarinnar hefur samþykkt að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Alþingismönnum ber að virða fyrirmæli þjóðarinnar, enda starfa þeir í okkar umboði. Við látum það ekki líðast að málefni, sem þjóðin hefur samþykkt, verði slegið út af borðinu í tafflleik stjórnmálanna. Við látum það ekki líðast að núgildandi stjórnarskrá verði við lýði mikið lengur. Við látum það ekki líðast að sérhagsmunir verði teknir framyfir hagsmuni þjóðarinnar. Ef við höldum hópinn getur ekkert stoppað okkur. Horfum fram á veginn og brosum. Við höfum sýnt hvað við viljum, fylgjum því eftir.

Categories: Óflokkað efni Tags:

Bálkur Hallgríms Helgasonar á fundi Radda fólksins 9. febrúar

February 12th, 2013 admin Comments off

HVERJIR ERU ÞJÓÐIN?
Flutt á útifundi um betri stjórnarskrá, 9.febrúar 2013.

Hverjir eru þjóðin?
Ekki ég?
Hverjir eru þjóðin?
Er hún treg?
Hverjir eru þjóðin?
Hvað er að ske?

Við stóðum stjörf, við sáum
samfélagið hrynja.
Við lágum flöt, við létum
yfir okkur dynja
vondar fréttir fimm sinnum á dag
um forsætis og fjármálaráðherra
sem fóru í teygjustökk með þjóðarhag.
Og allt sem áður þótti gott
var nú ljótt með loðið skott
sem logið hafði okkur full
með froðubull
um sæta langa sykurdaga
á sólskinsmaga.
Nú fengi landinn þolað þúsund lægðir
með gramm í nös og gylltar hægðir.

Og ljósið skein á svartan reyk og rúst
og ríkisvaldsins luktu lánaleið.
En skuggamegin burt úr bankaþúst
þá bankastjórn með fullar hendur skreið.

Og tröllin sátu kyrr og kveðjutreg
hvísluðust á en sögðu út í sal:
Nei, þið eruð ekki þjóðin, hún er ég
sem þegnar Hruns þið hafið ekkert val.

Hverjir eru þjóðin?
Ekki við?
Hverjir eru þjóðin?
Annað lið?
Hverjir eru þjóðin?
Alþingið?

En okkur tókst að taka soldið völdin
og til á sviðinu en bakvið tjöldin
við komumst ei, þar allt var við það sama
en undan þeim þó birtist hvíthærð dama:

“Við skulum núna skrifa stjórnarskrá
sem skilur okkur aðeins betur frá
öllu því sem áður var og hét
og okkur skilar áfram hænufet.”

Og við mátum, og við mættum
og við menntuðum okkur betur
og við lækuðum og við lásum.
Langur var sá vetur.

Einn bauð sig fram
og önnur til baka
eftir smá “skamm!”
því ættirnar kvaka.
Þær láta sem þær sofi
en samt munu þær vaka…

En konur og kalla
kosti og galla
við kynntum oss og kusum
og fylgdumst með og fórum
um fræðin líkust busum
og settum okkur inní mál
og sögðum skál
við dönskuskotið lagatæknitungumál
frá sautján hundruð og segulstál.

og vonuðum öll það besta
var ísinn lands að bresta?

Hverjir eru þjóðin?
Ég og þú?
Hverjir eru þjóðin?
Von og trú?
Hverjir eru þjóðin?
LÍÚ?

En Hæstifretur Íslands ákvað það
að ekki væri gilt það þjóðargaman
því þó svo hérna væri brotið blað
það brjóta skyldi öðruvísi saman.

Og áttatíu þúsund atkvæði
ógiltust því pappírinn var of þunnur
En þjóðin fékk ei unað því ákvæði
því úrskurðurinn var sentímetra of grunnur.

Svo stjórnlagaþing
varð stjórnlagaráð
stjórnlagalaust og engum háð.
Og eining þess
var öflug og merk:
Á einu sumri því kom í verk
sem fjórir flokkar og fimmtíu vetur
fengu ekki fært í letur.

Það þurfti þjóð
og þolinmótt blóð
til að feta þá lagaflækjuslóð
sem rædd var áður en aldrei þrædd
nema í orðum og varað við
ef vogaður sýndi’á sér fararsnið.

Lof bera orð á loforð sín
ef lítið ber á efndum.
Söguleg markmið sæt og fín
söfnuðu ryki í nefndum.

Ef enginn gerir ekki neitt
Þá aldrei neinu verður breytt.

Hverjir eru þjóðin?
Ekki við?
Hverjir eru þjóðin?
Annað lið?
Hverjir eru þjóðin?
Barn í kvið?

Já, litla gula þjóðin hélt sinn fund
af handahófi valin úr símaskrá
Og litla gula spurði létt í lund:
“Hver vill skrifa nýja stjórnarskrá?”
LÍÚ sagði “Ekki ég”.
SA sagði “Ekki ég”.
Flokkurinn sagði “Ekki ég”.
Sigmundur sagði “Ekki ég”
Mogginn sagði “Ekki ég”
Háskólinn sagði “Ekki ég”
Hæstiréttur “Ekki ég”
Lögfræðin sagði “Ekki ég”
Forsetinn sagði “Ekki ég”
En litla gula þjóðin sagði: “Je!
Ég skal þá bara skrifa hana sjálf
því ég er þjóðin heil en ekki hálf.

Og gula þjóðin litla lagði af stað
með ljós í hjarta, blek, og hnausþykkt blað
Enginn myndi segja eftir á
að afraksturinn væri ei stjórnarskrá.

Já, hverjir eru þjóðin?
Pabbi þinn?
Hverjir eru þjóðin?
Flokkurinn?
Hverjir eru þjóðin?
Forsetinn?

Stjórnlagaráðið stjórnarskrána fékk
tveim stjórnandi flokkum sem sögðu báðir “tékk”.
Eins og þetta væri bara búið
ball en ekki stærðar mál og snúið.
En að lokum málið lagt var inn á þing
og þingið sagði dingalingading!
“Þetta er bara rugl sem ekki má!
Nei, ég má alveg tala hérna smá!”
Og síðan tóku talíbunur við
og tölubanar, sem engu gefa grið
sem eitthvað gæti haft með gott að gera
og þykjast mjög svo málaefnalegir vera.

Sá seinagangur sakaði seinagang
um seinkun máls en seinka náði þó
þeim seinagangi með ælu í eigið fang
sem athygli frá meginmáli dró.

Húrra húrra málþófsmenn
mala hér á landi enn.

Hverjir eru þjóðin?
Þúsund ár?
Hverjir eru þjóðin?
Þorsteinn Már?
Hverjir eru þjóðin?
Nárinn blár?

En loks var kosið, kosið enn á ný:
Við kusum já já nei og já já já
Og sumir fóru í fýlu yfir því
Og flýttu sér að túlka allt á ská:

“Við verðum ei til niðurstöðu neydd
Af nokkrum þeim sem kusu hér í dag.
Þau atkvæði sem ekki eru greidd
er öllum frjálst að túlka sér í hag.

Og þjóðaratkvæðagreiðsla gildir ei
ef góður hluti þjóðar heima situr.
Við vitum öll þau vildu kjósa nei
því sófaþjóðin sú er snjöll og vitur.”

Hverjir eru þjóðin?
Fólkið hér?
Hverjir eru þjóðin?
Oss og vér?
Hverjir eru þjóðin?
Bráðið smér?

Og nú er málið fast í fornum viðjum
sem forðum töldu það sín helgust vé.
Það glittir í það gull í salnum miðjum
hvar gallið súra fólki nær í hné.

Úrtölumenn og konur varða veginn
sem vísar okkur inn á næsta svið
og þó að vegur sá sé okkar eigin
þau eru til sem vilja snúa við.

Er fyrirstaðan föst í okkur sjálfum?
því fyllir ekki þjóðin Ingólfstorgið?
Hér ekkert fæst með linum huga hálfum
Við héldum kannski að máli væri borgið?

Við sáum tímann yfir okkur hrapa
svo Ísland stóð þar eftir nafnið eitt.
Og nú við höfum aðeins einu að tapa:
Því tækifæri sem að oss var veitt.

Já, illt er sína fræknu frelsisglóð
að fela líkt og krækiber í lyngi
og illa komið fyrir þeirri þjóð
sem þægust lúffar fyrir eigin þingi.

Já, hverjir eru þjóðin? þjóðin spyr
og þó er spurningin sú einmitt svarið.
Á hverjum degi opnast aðrar dyr
en aðeins þeim sem fékk að heiman farið.

Svo kæru vinir, hættum ekki hér!
Því hér er ennþá mikið verk að vinna!
Sem veltur á oss öllum, mér og þér
og aldrei má því samstöðunni linna.

Ef aftur þarf að setja kross og kjósa
við kjósum alltaf þolinmæði og þor!
Og ef hér þarf að halda fund og frjósa
við frjósa skulum saman fram á vor!

Við stöndum saman sterk, uns yfir lýkur
og stundarvælið út í buskann fýkur
því þau sem standa skráð í símaskrá
þá skrifa okkur nýja stjórnarskrá.

Hverjir eru þjóðin?
Það er hún.

Hallgrímur Helgason

Categories: Óflokkað efni Tags:

Ræður Sigríðar og Illuga frá Austurvallarfundinum 19.01.2013

January 21st, 2013 admin Comments off
Categories: Óflokkað efni Tags:

Fyrsti Austurvallarfundur um stjórnarskrána

January 18th, 2013 admin Comments off

Raddir fólksins boða til útifundar um stjórnarskrármálið næstkomandi laugardag, 19. janúar klukkan 15.00 á Austurvelli.

Alþingi ber að virða skýran vilja kjósenda, eins og hann kom fram í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október. Meiri hluta Alþingis ber að láta þann vilja ná fram að ganga.

Ræðumenn:

Illugi Jökulsson, rithöfundur og blaðamaður
Sigríður Ólafsdóttir, lífefnafræðingur

Á undan fundinum mun Svavar Knútur flytja nokkra söngva sinna.

Fundarstjóri: Hörður Torfason

Categories: Óflokkað efni Tags:

Stjórnlagakaffi – Páll Skúlason

July 18th, 2011 admin Comments off

Categories: Óflokkað efni Tags:

Stjórnlagakaffi – Svanur Kristjánsson

July 17th, 2011 admin Comments off

Categories: Óflokkað efni Tags:

Stjórnlagakaffi – Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir

July 17th, 2011 admin Comments off

Categories: Óflokkað efni Tags:

Laugardagur 27. júní

June 25th, 2009 ritstjorn Comments off

Samtökin Raddir fólksins, undir yfirskriftinni Breiðfylking gegn ástandinu, standa fyrir útifundi á Austurvelli laugardaginn 27. júní kl. 15:00. Þetta er 25. vika útifundanna og 31. fundurinn á Austurvelli undir merkjum samtakanna.

Ítrekað er að Raddir fólksins eru óflokkspólitísk samtök sem byggja á sjálfsprottnu og ólaunuðu framtaki Íslendinga sem blöskrar hlutdeild banka, fjárglæpamanna, stjórnmálamanna og ríkisstofnanna í efnahagshruni þjóðarinnar.

Kröfur samtakanna eru skýrar:

  1. Stöðvum ICESAVE- samninginn
  2. Mótmælum sinnuleysi stjórnvalda í málefnum heimila og fyrirtækja
  3. Réttum tafarlaust yfir hvítflibbaglæpamönnum

Ræðumenn dagsins eru:

  1. Helgi Áss Grétarsson, lögfræðingur.
  2. Guðmundur Magnússon, varaformaður Öryrkjabandalagsins.
  3. Helga Björk Magnús- og Grétudóttir, hæstvirtur varaformaður Aðgerðahóps Háttvirtra Öryrkja.
  4. Þórður B. Sigurðsson, formaður Hagsmunasamtaka Heimilanna.

Fundarstjóri er Hörður Torfason.

Categories: Óflokkað efni, Útifundir Tags: