Archive

Archive for the ‘Kröfur’ Category

Fjármálaráðherra krafinn um afsögn

January 2nd, 2009 ritstjorn Comments off

Í dag, föstudaginn 2. janúar, kröfðu talsmenn Radda fólksins fjármálaráðherra um tafarlausa afsögn.

Undanfarna þrjá mánuði hafa Raddir fólksins staðið fyrir fjölmennum útifundum á Austurvelli. Tugþúsundir Íslendinga hafa séð sig knúna til að snúa bökum saman og mótmæla kröftuglega því ástandi sem ríkisstjórn Íslands hefur kallað yfir landsmenn. Krafa okkar er skýr: Burt með ríkisstjórnina, burt með stjórnir Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins og kosningar svo fljótt sem unnt er.

Ríkisstjórnin hefur kosið að hunsa kröfur landsmanna um tafarlausa uppstokkun og breytingar á stjórnkerfi landsins. Ráðherrar sitja sem fastast og vísa ábendingum um pólitíska ábyrgð frá sér. Formaður bankastjórnar Seðlabankans hefur í hótunum við forsætisráðherra og forstjóri Fjármálaeftirlitsins svarar ekki ítrekuðum fyrirspurnum fréttamanna.

Ljóst er að aðalleikarar á hinu pólitíska sviði í þeim fjárhagslegu hamförum sem skekið hafa Ísland eru þrír: Forsætisráðherra, fjármálaráðherra og formaður bankastjórnar Seðlabankans. Deila má um hvort einbeittur brotavilji þeirra eða stórfelld vankunnátta hafi ráðið för, en um afleiðingarnar verður ekki deilt.

Því verður ekki hjá því komist að saka þessa þjóna almennings um stórfelld brot í starfi sem heyra undir X. kafla almennra hegningarlaga. Með setningu Neyðarlaga 6. október sl. hratt þetta þríeyki af stað atburðarrás sem reyndist bein aðför að fullveldi Íslands og hagsmunum landsmanna.

Það er í ljósi þessarar grafalvarlegu stöðu sem Raddir fólksins fara hér með fram á tafarlausa afsögn fjármálaráðherra. Annmarkar á undirbúningi, ákvörðun og málsmeðferð allri eru með þeim hætti að óhjákvæmilegt er að ráðherra axli pólitíska ábyrgð. Uppsafnað vanhæfi hans er með þeim eindæmum að ekki verður lengur við unað.

Categories: Kröfur Tags:

Krafa um tafarlausan brottrekstur æðstu stjórnenda nýju bankanna

December 18th, 2008 ritstjorn Comments off

Fimmtudaginn 18. desember áttu talsmenn Radda fólksins fund með viðskiptaráðherra þar sem þeir kröfðu hann um tafarlausan brottrekstur æðstu stjórnenda nýju bankanna.

Fall gömlu bankanna þriggja, Glitnis, Landsbankans og Kaupþings, í byrjun október sl. markaði upphafið að ferli sem virtir íslenskir hagfræðingar hafa líkt við að nifteindasprengju væri varpað á Ísland. Efnahagslegur grundvöllur landsins hefur verið þurrkaður út og Íslendingar standa ráðþrota eftir með drápsklyfjar sem stjórnvöld, útrásarvíkingar og forsvarsmenn gömlu bankanna hafa kallað yfir almenning með vítaverðu sinnuleysi og vankunnáttu.

Ljóst er að stjórnendur gömlu bankanna fóru offari í skjóli máttlítilla ríkisstofnanna og stórhættulegra tengsla ráðamanna og peningafursta. Þannig námu umsvif gömlu bankanna a.m.k. 12 földum tekjum ríkisins á ársgrundvelli og engin von til þess að ríkið gæti hlaupið undir bagga með bönkunum ef illa færi.

Segja má að víxlverkandi áhrif glæpsamlegrar vankunnáttu æðstu stjórnenda gömlu bankanna, einbeittur brotavilji svokallaðra útrásarvíkinga og algert getuleysi ríkisstjórnar og ríkisstofnanna að bregðast við vandanum hafi varðað leiðina í mesta efnahagshruni sem dunið hefur yfir þjóðina.

Það er því grafalvarlegt og með öllu óásættanlegt að margir æðstu stjórnendur gömlu bankanna hafi verið endurráðnir í æðstu stjórn nýju bankanna, þ.m.t. bankastjórar Glitnis og Landsbankans. Þessi glæpsamlega ráðstöfun gjaldfellir trúverðugleika nýju bankanna og gerir þá að aðhlátursefni um heim allan. Það er skilyrðislaus krafa Radda fólksins að þessir stjórnendur verði tafarlaust reknir og rannsókn hafin á því hvernig stendur á aðkomu þeirra að nýju bönkunum. Raddir fólksins lýsa fullri pólitískri ábyrgð á hendur þeim sem þannig véluðu með fjöregg þjóðarinnar og telja einsýnt að þeir ráðamenn sem áttu hlut að máli axli ábyrgð og segi af sér.

Categories: Kröfur Tags:

Tafarlaus rannsókn á falli Glitnis

December 12th, 2008 ritstjorn Comments off

Fimmtudaginn 11. desember sl. báðu talsmenn Radda fólksins Ríkissaksóknara um tafarlausa rannsókn á falli Glitnis á grundvelli X. kafla almennra hegningarlaga.

Ljóst er að þrátt fyrir þrálátan orðróm um meinta refsiverða háttsemi þátttakenda í falli Glitnis og setningu neyðarlaga í kjölfarið hefur dómsvaldið enn ekki hafist handa um rannsókn málsatvika.

Á síðustu dögum hefur komið fram að endurskoðendur stærstu hluthafa Glitnis hafa mánuðum saman verið í fullri vinnu við að endurskoða sjálfa sig án vitneskju yfirstjórnar Fjármálaeftirlitsins og bankamálaráðherra um meint ólögmæt hagsmunatengsl.

Þá hefur einnig komið fram að formann bankastjórnar Seðlabankans og forsætisráðherra greinir á um grundvallaratriði í undanfara falls Glitnis.og fjármálaráðherra er uppvís af missögnum og grundvallarþekkingarleysi í aðkomu að málinu.

Í þessari grafalvarlegu stöðu, þar sem sjálfum grundvelli réttarríkisins er ógnað af þeim sem síst skyldu, hefur dómsvaldið brugðist skyldum sínum. Ljóst er að dómsmálaráðherra hefur sýnt vítavert sinnuleysi í viðbrögðum við einum stærsta vanda sem dunið hefur yfir þjóðina. Dómsmálaráðherra ber því að axla ábyrgð og segja tafarlaust af sér.

Categories: Kröfur Tags: