Samtökin Raddir fólksins, undir yfirskriftinni Breiðfylking gegn ástandinu, standa fyrir útifundi á Austurvelli laugardaginn 27. júní kl. 15:00. Þetta er 25. vika útifundanna og 31. fundurinn á Austurvelli undir merkjum samtakanna.
Ítrekað er að Raddir fólksins eru óflokkspólitísk samtök sem byggja á sjálfsprottnu og ólaunuðu framtaki Íslendinga sem blöskrar hlutdeild banka, fjárglæpamanna, stjórnmálamanna og ríkisstofnanna í efnahagshruni þjóðarinnar.
Kröfur samtakanna eru skýrar:
- Stöðvum ICESAVE- samninginn
- Mótmælum sinnuleysi stjórnvalda í málefnum heimila og fyrirtækja
- Réttum tafarlaust yfir hvítflibbaglæpamönnum
Ræðumenn dagsins eru:
- Helgi Áss Grétarsson, lögfræðingur.
- Guðmundur Magnússon, varaformaður Öryrkjabandalagsins.
- Helga Björk Magnús- og Grétudóttir, hæstvirtur varaformaður Aðgerðahóps Háttvirtra Öryrkja.
- Þórður B. Sigurðsson, formaður Hagsmunasamtaka Heimilanna.
Fundarstjóri er Hörður Torfason.
Samtökin Raddir fólksins, undir yfirskriftinni Breiðfylking gegn ástandinu, standa fyrir útifundi á Austurvelli laugardaginn 20. júní. Þetta er 24. vika útifundanna og 30. fundurinn á Austurvelli.
Raddir fólksins eru óflokkspólitísk samtök sem byggja á sjálfsprottnu og ólaunuðu framtaki Íslendinga sem blöskrar hlutdeild banka, fjárglæpamanna, stjórnmálamanna og eftirlitsstofnanna ríkisins í efnahagshruni þjóðarinnar.
Kröfur samtakanna eru skýrar:
- Stöðvum ICESAVE- samninginn
- Mótmælum sinnuleysi stjórnvalda í málefnum heimila og fyrirtækja
- Krefjumst þess að dómskerfið taki á hvítflibbaglæpamönnum
Ræðufólk dagsins er:
Andrea Ólafsdóttir, stjórnarkona í Hagsmunasamtökum Heimilanna
Jóhannes Þ. Skúlason, sagnfræðingur og grunnskólakennari
Fundarstjóri er Hörður Torfason.
Samtökin Raddir fólksins, undir yfirskriftinni Breiðfylking gegn ástandinu, standa fyrir útifundi á Austurvelli laugardaginn 14. mars. Þetta er 23. vika útifundanna og 29. fundurinn á Austurvelli.
Raddir fólksins eru óflokkspólitísk samtök sem byggja á sjálfsprottnu og ólaunuðu framtaki Íslendinga sem blöskrar aðför bankastjórna, fjárglæpamanna og stjórnmálamanna að sjálfstæði þjóðarinnar.
Kröfur samtakanna eru skýrar:
- Frystum eignir fjárglæpamanna
- Afnemum verðtrygginguna
- Færum kvótann aftur til þjóðarinnar
Ræðufólk dagsins er:
- Hjálmar Sveinsson, útvarpsmaður
- Aðalheiður Ámundadóttir, laganemi
Fundarstjóri: Gunnar Sigurðsson
Samtökin Raddir fólksins standa fyrir útifundi á Austurvelli laugardaginn 7. mars 2009. Þetta er 22. vika útifundanna og 28 mótmælafundurinn á Austurvelli undir yfirskriftinni Breiðfylking gegn ástandinu.
Kröfur samtakanna eru skýrar:
- Frystum eignir fjárglæpamanna
- Afnemum verðtrygginguna
- Færum kvótann aftur til þjóðarinnar
Raddir fólksins eru óflokkspólitísk samtök sem byggja á sjálfsprottnu og ólaunuðu framtaki þjóðhollra Íslendinga sem blöskrar aðför bankastjórna, fjárglæpamanna og stjórnmálamanna að sjálfstæði þjóðarinnar.
Af gefnu tilefni frábiðjum við okkur að vera bendluð við það ólýðræðislega flokksræði sem ræður ríkjum á Alþingi. Framtíð landsins byggist á því að þjóðin hreinsi til á þingi og í stjórnkerfinu. Flokkakerfið hefur brugðist og nú verður að skrifa nýja stjórnarskrá með breyttum pólitískum leikreglum.
Í undanfara síðustu stjórnarskipta fóru talsmenn Radda fólksins á fund forseta Íslands með kröfu um utanþingsstjórn. Í kjölfarið fengu Íslendingar ríkisstjórn þar sem tveir af tíu ráðherrum, viðskiptaráðherra og dómsmálaráðherra, eru fulltrúar hugmynda samtakanna. Þessir umræddu ráðherrar eru óumdeildir mannkostamenn með mikla þekkingu á sínum málaflokkum.
Ræður:
- Carlos Ferrer, guðfræðingur og kennari
- Ragnheiður Gestsdóttir, rithöfundur
Fundarstjóri: Hörður Torfason
Samtökin Raddir fólksins standa fyrir 27. mótmælafundinum á Austurvelli laugardaginn 28. febrúar n.k. kl. 15:00. Yfirskrift fundarins er Breiðfylking gegn ástandinu og kröfurnar eru skýrar:
1. Frystum eignir “útrásarvíkinganna”
2. Afnemum verðtrygginguna
3. Færum kvótann aftur til þjóðarinnar
Talsmenn Radda fólksins áttu fund með dóms- og kirkjumálaráðherra, Rögnu Árnadóttur, miðvikudaginn 25. febrúar sl. Tilefni fundarins var að kynna kröfu hreyfingarinnar, um frystingu eigna “útrásarvíkinganna”, fyrir ráðherra.
Á fundinum fóru fram ítarleg og hreinskiptin skoðanaskipti um málið. Ráðherra tók fram að sérstakur saksóknari hefði lagaúrræði til að frysta eignir “útrásarvíkinganna” og vilji væri fyrir hendi hjá ráðuneytinu að afgreiða tilskylda rannsóknarvinnu fljótt og vel.
Ræður:
• Valgeir Skagfjörð, leikari og leikstjóri
• Heiða Björk Heiðarsdóttir.
Fundarstjóri: Hörður Torfason
Samtökin Raddir fólksins standa fyrir útifundi á Austurvelli laugardaginn 21. febrúar 2009. Þetta er 20. vika útifundanna og sem fyrr undir yfirskriftinni Breiðfylking gegn ástandinu.
Samtökin Raddir fólksins hafa einbeitt sér að því að kalla til fólk úr öllum stéttum þjóðfélagsins til að ræða – og bregða ljósi á – það stjórnmála- og efnahagsástand sem ríkir á landinu.
Það verður aldrei nægilega oft undirstrikað að á bakvið þessa fundi eru ekki nein stjórnmálasamtök né stjórnmálahreyfing, heldur er þetta sjálfsprottið og ólaunað framtak – tilkomið vegna mannréttindabrota á heilli þjóð.
Ræður:
- Marinó G. Njálsson, ráðgjafi.
- Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, framkvæmdastýra.
Fundarstjóri: Hörður Torfason.
Raddir fólksins halda mótmælafund á Austurvelli laugardaginn 14. febrúar kl. 15.00. Yfirskrift fundarins er sem fyrr “Breiðfylking gegn ástandinu”. Þetta er nítjandi mótmælafundurinn í röð og krafan er skýr: Stjórn Seðlabankans verður að víkja.
Talsmenn Radda fólksins áttu fundi með viðskiptaráðherra og forseta ASÍ miðvikudaginn 11. febrúar sl., svo og forsætisráðherra föstudaginn 13. febrúar. Staða Seðlabankans og hústaka Davíðs Oddssonar var m.a. rædd á þessum fundum og ljóst að ráðherrar og forseti ASÍ eru sammála um þjóðhagslegt mikilvægi þess að leysa stjórnunarvanda Seðlabankans með öllum ráðum.
Ávörp og ræður:
- Elísabet Jónsdóttir, ellilífeyrisþegi
- Ágúst Guðmundsson, leikstjóri
Fundarstjóri er: Hörður Torfason.
Raddir fólksins halda mótmælafund á Austurvelli laugardaginn 7. febrúar kl. 15.00. Yfirskrift fundarins er sem fyrr “Breiðfylking gegn ástandinu”. Þetta er sjötti mótmælafundurinn í ár og sá átjándi í röð frá hruni bankakerfisins og setningu neyðarlaga í byrjun október sl.
Talsmenn Radda fólksins áttu fund með forseta Íslands föstudaginn 30. janúar sl. og ræddu hugmyndir um nýja stjórnskipan og utanþingsstjórn, nauðsyn á þátttöku almennings í umræðum um nýtt lýðveldi sem og árangurinn af útifundum undanfarna mánuði.
Segja má að forseti og þing hafi að hluta til tekið undir sjónarmið Radda fólksins með skipan óháðra sérfræðinga í stöður viðskipta- og dómsmálaráðherra. Búsáhaldabyltingin hefur því náð að hreyfa við gamla flokksræðinu, en betur má ef duga skal. Nú er nauðsynlegt að taka upp virkt lýðræði og losa þjóðina við útsendara flokkseigenda í fjármálafyrirtækjum, stjórnsýslunni, háskólum og fjölmiðlum.
Það er ekki að ástæðulausu að áhrifum útifundanna hefur verið líkt við Múrbrjót sem með endurteknum þunga mylur niður þann múr þagnar og spillingar sem einkennt hefur stjórnarhætti hérlendis til margra ára. Og áfram skal haldið.
Ræður:
- Laufey Ólafsdóttir, formaður einstæðra foreldra
- Andrés Magnússon, geðlæknir
Fundarstjóri er: Hörður Torfason.
Sautjándi mótmælafundur Radda fólksins verður haldinn á Austurvelli laugardaginn 31. janúar nk. kl. 15:00.
Yfirskrift fundarins er sem fyrr Breiðfylking gegn ástandinu.
Í sautján vikur hafa Raddir fólksins barist gegn flokksræði og siðleysi í íslenskum stjórnmálum. Tugþúsundir Íslendinga hafa flykkst á Austurvöll til að knýja fram virkt lýðræði og nýja stjórnarskrá.
Með samstilltu átaki fjöldans og einbeittum markmiðum hefur okkur tekist að ná glæsilegum áfangasigri. Ein óvinsælasta stjórn Íslandssögunnar er fallin, boðað hefur verið til kosninga og búið er að víkja stjórn Fjármálaeftirlitsins frá störfum.
Eftir er þó lokavígi landráða og valdagræðgi í íslenskri flokkspólitík. Stjórn Seðlabankans situr enn. Þeir vanhæfu einstaklingar sem þar sitja verða að víkja tafarlaust og sæta ábyrgð fyrir embættisafglöp.
Ávörp og ræður:
- Viðar Hreinsson, bókmenntafræðingur
- Katrín Snæhólm Baldursdóttir, listakona
- Viðar Þorsteinsson, heimsspekingur
Fundarstjóri er Hörður Torfason
Búsáhaldaboogie á NASA
Að kvöldi dags, laugardaginn 31. janúar, halda Raddir fólksins sigurtónleika, Búsáhaldaboogie, á NASA. Mugison, Sudden Weather Change, Reykjavík, Erpur og XXXRottweiler og Jeff Who troða upp með tilþrifum og halda byltingunni gangandi fram á rauða nótt. Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl. 23:00. Aðgangseyrir er kr. 1000,- og rennur óskiptur til Radda fólksins.
Sextándi mótmælafundur Radda fólksins verður haldinn á Austurvelli laugardaginn 24. janúar nk. kl. 15:00.
Yfirskrift fundarins er sem fyrr Breiðfylking gegn ástandinu og kröfurnar skýrar:
- Burt með ríkisstjórnina
- Burt með stjórnir Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins
- Kosningar svo fljótt sem unnt er
Raddir fólksins harma alvarleg veikindi Geirs H. Haarde forsætisráðherra og óska honum velfarnaðar og góðs bata. Við fögnum velheppnaðri aðgerð á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra og bjóðum hana velkomna heim.
Ljóst er að stuðningsmenn friðsamlegra mótmæla hafa unnið þrekvirki. Þúsundir mótmælenda hafa mótmælt vanhæfri ríkisstjórn látlaust síðustu daga og viðbrögð grasrótarinnar í Samfylkingunni bera þess ótvíræð merki að síðustu dagar þessarar valdstjórnar eru að renna upp.
Þrátt fyrir áfangasigur með yfirlýsingu um kosningar 9. maí nk. má ekki slaka á. Þjóðin getur ekki búið við vanhæfa ríkisstjórn deginum lengur. Sömu stjórnirnar sitja sem fastast í Seðlabanka og Fjármálaeftirliti og útrásarvíkingarnir leika lausum hala. Sameinumst um að reka endahnút á siðleysi og spillingu – hefjum vorhreingerningar í íslenska stjórnkerfinu.
Ávörp og ræður:
- Magnús Björn Ólafsson, blaðamaður
- Hildur Helga Sigurðardóttir, blaðamaður
- Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, stjórnsýslufræðingur
- Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur
Fundarstjóri er Hörður Torfason.