Archive

Author Archive

#17 – Laugardagur 31. janúar

January 30th, 2009 ritstjorn 5 comments

Sautjándi mótmælafundur Radda fólksins verður haldinn á Austurvelli laugardaginn 31. janúar nk. kl. 15:00.

Yfirskrift fundarins er sem fyrr Breiðfylking gegn ástandinu.

Í sautján vikur hafa Raddir fólksins barist gegn flokksræði og siðleysi í íslenskum stjórnmálum. Tugþúsundir Íslendinga hafa flykkst á Austurvöll til að knýja fram virkt lýðræði og nýja stjórnarskrá.

Með samstilltu átaki fjöldans og einbeittum markmiðum hefur okkur tekist að ná glæsilegum áfangasigri. Ein óvinsælasta stjórn Íslandssögunnar er fallin, boðað hefur verið til kosninga og búið er að víkja stjórn Fjármálaeftirlitsins frá störfum.

Eftir er þó lokavígi landráða og valdagræðgi í íslenskri flokkspólitík. Stjórn Seðlabankans situr enn. Þeir vanhæfu einstaklingar sem þar sitja verða að víkja tafarlaust og sæta ábyrgð fyrir embættisafglöp.

Ávörp og ræður:

 • Viðar Hreinsson, bókmenntafræðingur
 • Katrín Snæhólm Baldursdóttir, listakona
 • Viðar Þorsteinsson, heimsspekingur

Fundarstjóri er Hörður Torfason

Búsáhaldaboogie á NASA

Að kvöldi dags, laugardaginn 31. janúar, halda Raddir fólksins sigurtónleika, Búsáhaldaboogie, á NASA. Mugison, Sudden Weather Change, Reykjavík, Erpur og XXXRottweiler og Jeff Who troða upp með tilþrifum og halda byltingunni gangandi fram á rauða nótt. Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl. 23:00. Aðgangseyrir er kr. 1000,- og rennur óskiptur til Radda fólksins.

Áfangasigrar í langri baráttu

January 26th, 2009 ritstjorn 2 comments

Raddir fólksins fagna löngu tímabærum afsögnum Geirs H. Haarde forsætisráðherra og Björgvins G. Sigurðssonar viðskiptaráðherra. Ástæða er til að benda á að fyrrverandi viðskiptaráðherra sá sóma sinn í að axla pólitíska ábyrgð og viðurkenna þátt sinn í efnahagslegri óstjórn fráfarandi ríkisstjórnar en fyrrverandi forsætisráðherra hverfur frá völdum nauðugur viljugur, án þess að biðja þjóðina afsökunar á axarsköftum sínum.

Það er fagnaðarefni þegar ein óvinsælasta ríkisstjórn í sögu lýðveldisins hverfur loksins frá völdum. Þessi niðurstaða fékkst með órofa samstöðu þjóðarinnar og sögulegum mótmælaaðgerðum. 80% þjóðarinnar reis upp og sagði pólitískri spillingu og flokksræði stríð á hendur. Ljóst er að landsmenn geta ekki sætt sig við að vanhæfir þingmenn geri enn eina atlöguna að lýðræðinu. Við krefjumst þess að utanþingsstjórn verði mynduð án tafar og þingmenn verði látnir axla ábyrgð.

Fráfarandi ríkisstjórn var búin að gefa ádrátt um kosningar 9. maí n.k. Nú hafa mál skipast þannig að fráfarandi forsætisráðherra er búinn að skila umboði sínu og við blasir að stjórnarkreppa ríkir í landinu. Við þessar aðstæður er óásættanlegt að umboðslausir stjórnmálamenn véli með dagsetningu kosninga. Þjóðin sjálf verður að taka af skarið og ákveða réttan tíma fyrir kosningar að því tilskyldu að fyrir liggi drög að nýrri stjórnarskrá og trygging fyrir því að gamla siðspillta flokksræðið hverfi á öskuhauga sögunnar.

Fyrir liggur að fráfarandi viðskiptaráðherra tók loksins á sig rögg í gær og rak forstjóra og stjórn Fjármálaeftirlitsins. Um leið og Raddir fólksins fagna þessari aðgerð viljum við benda á að samkvæmt fréttum mun fráfarandi forstjóri ekki láta af störfum fyrr en 1. mars nk. Auk þess var það síðasta verk stjórnar Fjármálaeftirlitsins að ganga frá starfslokasamningi við fráfarandi forstjóra upp á liðlega tuttugu milljónir króna. Það er skilyrðislaus krafa Radda fólksins að forstjóri Fjármálaeftirlitsins víki tafarlaust og starfslokasamningur við hann verði ógiltur.

Ástæðulaust er að fjölyrða um dapurlega stöðu stjórnar Seðlabankans. Vitað er að hún hefur ekkert traust landsmanna og erlendis er hún aðhlátursefni. Soldáninn á Svörtuloftum situr og situr og situr meðan þjóðinni blæðir út. Hann hefur treyst á tangarhald sitt á fráfarandi forsætisráðherra og beitt siðleysi og blekkingum til að breiða yfir eigin valdníðslu og landráð. Því verður einfaldlega ekki unað deginum lengur að gjörsamlega vanhæfur uppgjafarstjórnmálamaður véli með fjöregg þjóðarinnar. Stjórn Seðlabankans verður að víkja.

Categories: Fréttatilkynningar Tags:

#16 – Laugardagur 24. janúar

January 23rd, 2009 ritstjorn 8 comments

Sextándi mótmælafundur Radda fólksins verður haldinn á Austurvelli laugardaginn 24. janúar nk. kl. 15:00.

Yfirskrift fundarins er sem fyrr Breiðfylking gegn ástandinu og kröfurnar skýrar:

 • Burt með ríkisstjórnina
 • Burt með stjórnir Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins
 • Kosningar svo fljótt sem unnt er

Raddir fólksins harma alvarleg veikindi Geirs H. Haarde forsætisráðherra og óska honum velfarnaðar og góðs bata. Við fögnum velheppnaðri aðgerð á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra og bjóðum hana velkomna heim.

Ljóst er að stuðningsmenn friðsamlegra mótmæla hafa unnið þrekvirki. Þúsundir mótmælenda hafa mótmælt vanhæfri ríkisstjórn látlaust síðustu daga og viðbrögð grasrótarinnar í Samfylkingunni bera þess ótvíræð merki að síðustu dagar þessarar valdstjórnar eru að renna upp.

Þrátt fyrir áfangasigur með yfirlýsingu um kosningar 9. maí nk. má ekki slaka á. Þjóðin getur ekki búið við vanhæfa ríkisstjórn deginum lengur. Sömu stjórnirnar sitja sem fastast í Seðlabanka og Fjármálaeftirliti og útrásarvíkingarnir leika lausum hala. Sameinumst um að reka endahnút á siðleysi og spillingu – hefjum vorhreingerningar í íslenska stjórnkerfinu.

Ávörp og ræður:

 • Magnús Björn Ólafsson, blaðamaður
 • Hildur Helga Sigurðardóttir, blaðamaður
 • Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, stjórnsýslufræðingur
 • Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur

Fundarstjóri er Hörður Torfason.

Áfengi og mótmæli eiga ekki saman

January 22nd, 2009 ritstjorn 2 comments

Raddir fólksins hvetja mótmælendur til að gera hlé á mótmælum eftir kl. 20:00 nk. föstudags- og laugardagskvöld. Ljóst er að áfengi og mótmæli eiga ekki saman og mikilvægt er að ábyrgir og friðsamir mótmælendur séu ekki bendlaðir við ofbeldisverk.

Við höfum unnið áfangasigur í baráttu við siðlaus og óbilgjörn stjórnvöld. Ríkisstjórnin situr þó enn þrátt fyrir að innan við fjórðungur landsmanna styðji hana – einræði aulanna er staðreynd. Verkefni morgundagsins er því að auka slagkraft mótmælanna um land allt. Fyllum Austurvöll nk. laugardag kl. 15:00.

Categories: Fréttatilkynningar Tags:

Sigur lýðræðis er í augsýn

January 22nd, 2009 ritstjorn Comments off

Raddir fólksins hafa staðið fyrir friðsömum mótmælafundum á Austurvelli undanfarna mánuði. Tugþúsundir Íslendinga hafa þar tekið undir skýrar kröfur um að stjórnir Seðlabanka og Fjármálaeftirlits fari frá, stjórnarslit verði og kosningar svo fljótt sem unnt er. Það er ljóst að vilji þjóðarinnar stendur til þess að endurreisa lýðveldið með því að rita nýja stjórnarskrá og breyta pólitískum leikreglum.

Raddir fólksins hvöttu þjóðina til friðsamlegrar mótmælastöðu við Alþingi kl 13:00 sl. þriðjudag. Þessi hvatning varð kveikjan að umfangsmestu mótmælum gegn sitjandi stjórnvöldum í sögu þjóðarinnar. Því miður breyttust friðsamleg mótmæli í átök sl. nótt. Íslendingar una því ekki að þjóðin berjist innbyrðis. Landsmenn verða að standa saman allir sem einn á þessum erfiðu tímum.

Raddir fólksins biðja mótmælendur að gæta stillingar og hófsemi og halda í  þá sjálfsvirðingu sem var svo snertandi í gær þegar mótmælendur fluttu sig til vegna jarðarfarar og þögðu uns athöfninni lauk. Stöndum saman, berjum bumbur, köllum slagorð, syngjum saman – látum raddir okkar heyrast og mótmælum friðsamlega.

Sögulegur sigur lýðræðis í landinu er í augsýn. Lögreglan er ekki óvinur okkar. Beinum sjónum okkar að því að byggja upp nýtt Ísland, nýtt lýðveldi og nýja þjóð.

Categories: Yfirlýsingar Tags:

Mótmælastaða við Alþingishúsið

January 21st, 2009 ritstjorn 1 comment

Í tilefni af mótmælastöðu við Alþingishúsið þriðjudaginn 20. janúar og miðvikudaginn 21. janúar vilja Raddir fólksins koma eftirfarandi á framfæri.

Raddir fólksins hafa vikum saman reynt að ná eyrum ráðamanna þjóðarinnar til að vara þá við afleiðingum sofandaháttar og aðgerðaleysis. Rætt hefur verið við ríkissaksóknara, viðskiptaráðherra, fjármálaráðherra og forsætisráðherra.

Á þessum fundum hefur boðskapur okkar verið skýr: Það er knýjandi nauðsyn að ríkisstjórnin bregðist tafarlaust við og skipi nýjar stjórnir Seðlabanka og Fjármálaeftirlits, segi af sér og boði til nýrra kosninga.

Því miður hefur ríkisstjórnin þverskallast við að fara að vilja landsmanna. Því er óhjákvæmilegt að þjóðin rísi upp og tjái ráðamönnum vilja sinn á þann kröftuga hátt sem við höfum orðið vitni að í gær og í dag.

Raddir fólksins leggja áherslu á friðsamleg mótmæli og harma að saklausir sjónarvottar hafi orðið fyrir barðinu á tilviljanakenndri valdbeitingu lögreglunnar. Á sama hátt er ljóst að hlutverk lögreglunnar er ekki öfundsvert við þessar aðstæður.

Categories: Fréttatilkynningar Tags:

Mótmælastaða við Alþingishúsið þriðjudaginn 20. janúar

January 19th, 2009 ritstjorn Comments off

Undanfarnar vikur hafa kröfur almennings orðið æ háværari um aukinn slagkraft mótmæla á Austurvelli. Auk ræðuhalda á laugardögum hafa margir beðið um hávær en friðsamleg mótmæli í miðri viku.

Í tilefni af setningu Alþingis á morgun, þriðjudaginn 20. janúar, hafa Raddir fólksins því ákveðið að hvetja til mótmælastöðu við Alþingishúsið kl. 13:00.

Fólk er hvatt til að hafa með sér söngbækur, sleifar, potta og pönnur, hrossabresti og flautur og allt hvaðeina sem nota má til að framleiða hávaða. Gera má ráð fyrir að mótmælastaðan taki rúman klukkutíma.

Íslendingar verða að vekja þingheim af Þyrnirósarsvefni. Nauðsynlegt er að lýðræðiskjörnir fulltrúar fólksins hætti að hunsa kröfur mikils meirihluta þjóðarinnar. Stjórnir Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins verða að víkja tafarlaust og.ríkisstjórnin verður að segja af sér og boða til kosninga hið fyrsta.

Categories: Útifundir, Fundir, Tilkynningar Tags:

Myndir frá Austurvelli 17.01.09

January 17th, 2009 ritstjorn 2 comments
Categories: Myndir Tags:

#15 – Laugardagur 17. janúar

January 16th, 2009 ritstjorn Comments off

Samtökin Raddir fólksins standa fyrir mótmælafundi á Austurvelli laugardaginn 17. janúar nk. kl 15:00. Þetta er fimmtánda vika virkra mótmæla þjóðarinnar gegn siðleysi banka, auðmanna og stjórnvalda.

Íslendingar búa við stjórnarkreppu í miðju ölduróti ofurskulda og ráðakeysi íslenskra stjórnvalda er löngu farið að vekja athygli og undrun umheimsins.

Yfirskrift fundarins er sem fyrr Breiðfylking gegn ástandinu og kröfurnar skýrar: Burt með ríkisstjórnina, burt með stjórnir Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins og kosningar svo fljótt sem unnt er.

Samtökin Raddir fólksins leggja áherslu á friðsamleg fjöldamótmæli um land allt. Máttur fjöldans mun færa þjóðinni langþráðar stjórnarbætur og nýtt Ísland.

Ræðumenn :

 • Svanfríður Anna Lárusdóttir – Atvinnulaus
 • Gylfi Magnússon – Dósent

Fundarstjóri :

 • Hörður Torfason
Categories: Útifundir Tags:

#14 – Laugardagur 10. janúar 2009

January 10th, 2009 ritstjorn Comments off

Fjórtándi mótmælafundur Radda Fólksins á Austurvelli, laugardaginn 10. janúar 2009

Ræðumenn :

 • Þorvaldur Þorvaldssson, trésmiður
 • Lilja Mósesdóttir, hagfræðingur
 • Lárus Páll Birgisson, sjúkraliði

Fundarstjórn :

 • Hörður Torfason
Categories: Útifundir Tags: